Vara við svifryksmengun um áramótin

Mikil hætt er á svifriksmengun í Reykjavík um áramótin.
Mikil hætt er á svifriksmengun í Reykjavík um áramótin. mbl/Ómar

Sterkar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2022 vegna mengunar frá flugeldum og búast má við því að styrkurinn verði yfir heilsuverndarmörkum. Þetta segir í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Svifriksmengun bæði varasöm og heilsuspillandi

Jafnframt séu líkur á að styrkurinn verði áfram hár fram eftir degi á nýársdag ef það verður hæglætisveður, að því er greint er frá í tilkynningunni. Hægt er að fylgjast með veðurspánni á vef Veðurstofu Íslands.

Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi en á undanförnum árum hafa verið flutt inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ári. Árið í ár er engin undantekning en fyrir þessi áramót hafa verið flutt inn til landsins tæplega 640 tonn af skoteldum, þar af er púðurmagnið um 56 tonn. 

Í tilkynningunni er haft eftir höfundum skýrslunnar Mengun af völdum skotelda að sú mengun sem oft verði um áramótin af völdum skotelda hafi óæskileg áhrif á heilsu margra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem séu með undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Kaup á rótarskotum dragi úr fjölda flugelda

Þá hvetur Reykjavíkurborg borgarbúa tl að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli og bendir á að hægt sé að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir rótarskotin gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntur um land allt næsta sumar sem stuðlar að meiri loftgæðum og dregur úr gróðurhúsaáhrifum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að best sé að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim sé hleypt út, þótt það sé aðeins út í garð.

Þó svo að flugeldar séu úr pappa sé notaður leir í botninn sem geri það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. Hann á því ekki að setja í almenna ruslatunnu heldur skuli skila honum á endurvinnslustöðvar SORPU. Sama gildi um ósprungna flugelda en þeir eigi að fara í spilliefnagáminn.

Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér, ganga frá þeim daginn eftir og fara með til förgunar 2. janúar þegar endurvinnslustöðvar  Sorpu eru opnaðar.“

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert