Útboð í undirbúningi

Núverandi Ölfusárbrú og fremst stöplar brúar sem reist var 1891.
Núverandi Ölfusárbrú og fremst stöplar brúar sem reist var 1891. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegagerðin áformar að hefja útboðsferli vegna byggingar nýrrar Ölfusárbrúar nærri komandi mánaðamótum. Sem kunnugt er stendur til að framkvæmdin verði með svokallaðri samvinnuleið, skv. lögum þar að lútandi sem Alþingi samþykkti á síðasta kjörtímabili. Slíkt þýðir þá að brúarsmíðin og vegagerð henni samhliða eru í samstarfi ríkis, verktaka og fjármálafyrirtækja sem lána fé í verkefnið. Innheimt verða veggjöld af þeim sem nota brúna og munu þau borga framkvæmdina að hluta. Samkvæmt samgönguáætlun er kostnaður við verkið 6,1 ma. kr. á verðlagi í október 2019, en verið er að uppfæra kostnaðaráætlanir.

Vegur í Hellismýri

„Útboð á samvinnuverkefni og fjármögnun er tímafrekt og tekur nokkra mánuði. Við gerum eigi að síður ráð fyrir að fara í útboð á næstu vikum. Fyrsti áfanginn þar er kynningarfundur með fjárfestum og verktökum núna í febrúar,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.

Ný Ölfusárbrú verður um 330 metra löng; stagbrú með stöpli á Efri-Laugardælaeyju sem er á ánni rétt fyrir ofan Selfoss. Vestan Ölfusár verður um svonefnda Hellismýri lagður að brúnni vegur, sem kemur í beinu framhaldi af nýjum Suðurlandsvegi sunnan Ingólfsfjalls sem nú er verið að leggja. Síðasta haust voru raunar fluttir um 70 þúsund rúmmetrar af efni að vegstæðinu í mýrinni, það er fyllingarefni úr vegagerð á nærliggjandi slóðum.

Austan ár verður vegurinn í heimatúni á kirkjustaðnum Laugardælum og lagður yfir hluta golfvallarins þar. Golfvallarsvæðið fær Vegagerðin afhent í september næstkomandi samkvæmt samningi við Golfklúbb Selfoss. Á þeim stað verður lagður vegur að brúnni sem tengist aftur inn á hringveginn rétt austan við Selfoss.

„Núna erum við að hnýta síðustu lausu endana með Sveitarfélaginu Árborg, meðal annars varðandi lagnir sem um brúna eiga að fara, göngu- og hjólastíga. Þetta er allt að smella saman og miðað er við að brú og vegur verði tilbúin árið 2025,“ segir Guðmundur Valur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »