Komið að Janssen-þegum

Það verður opið hús í Laugardalshöllinni í vikunni.
Það verður opið hús í Laugardalshöllinni í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetning Janssen-þega með þriðja skammtinum hófst í síðustu viku og heldur hún áfram næstu daga í Laugardalshöll en nú eru komnir fimm mánuðir frá því að ráðist var í örvunarbólusetningu Janssen-þega í Laugardalshöll.

Þá eru einnig liðnir fimm mánuðir síðan kennarar og aðrir skólastarfsmenn sem höfðu fengið Janssen-bóluefnið fengu örvunarbólusetningu.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hvetur fólk til að drífa sig í þriðju bólusetningu séu fimm mánuðir liðnir frá annarri bólusetningu. „Það eru flestir komnir á þann tíma núna,“ segir Ragnheiður.

Að sögn Ragnheiðar mættu töluvert margir kennarar í bólusetningu í síðustu viku. „Sýnist vera einhverjir 5.000 eftir sem munu þá örugglega klárast í næstu viku svo þetta er alveg að hafast,“ bætir hún við.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fá ekki boðun í bólusetningu

Opið hús verður í Laugardalshöll í vikunni, frá mánudegi til föstudags milli klukkan 10 og 15. Val verður um bóluefni frá Moderna og Pfizer.

Ragnheiður segir Janssen-þega ekki þurfa að fá boð til að mæta í þriðju bólusetningu í vikunni. Aftur á móti, ef mætingin verði dræm, þá verði keyrt í að boða þá og þeim send strikamerki.

Í vikunni verða börn fædd árið 2016 einnig bólusett en Ragnheiður segir bólusetningar barna í síðustu viku hafa gengið ótrúlega vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka