Göng það eina sem eyðir allri óvissu

Starfsmaður Vegagerðarinnar ryður burt snjó í Súðavíkurhlíð. Mynd úr safni.
Starfsmaður Vegagerðarinnar ryður burt snjó í Súðavíkurhlíð. Mynd úr safni. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Súðvíkingur sem vinnur á Ísafirði segir bagalegt að þurfa alltaf að hafa mögulega vegalokun Súðavíkurhlíðar hangandi yfir sér. Veginum var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóða og snjóflóðahættu en opnaði rétt fyrir hádegi.

Garðar Sig­ur­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri og ann­ar eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins Vestfirskir verktakar, keyrir í 20 mínútur á hverjum degi frá heimili sínu í Súðavík í vinnuna á Ísafirði. Hann segir að til að eyða allri óvissu og gera leiðina greiðfæra allan ársins hring þurfi að bora göng til að leysa af veginn um Súðavíkurhlíð.

Snjóflóðahætt­an er viðvar­andi á vet­urna og að vori og hausti …
Snjóflóðahætt­an er viðvar­andi á vet­urna og að vori og hausti getur skapast hætta á grjóthruni.

Snjóflóðahætt­an er viðvar­andi á vet­urna og að vori og hausti getur skapast hætta á grjóthruni. Vegagerðin hefur sett upp nokkurs konar öryggisskála á leiðinni, þar sem mest hætta er á snjóflóði og grjóthruni en Garðar segir að þrátt fyrir þær dýru framkvæmdir sé veginum ekki haldið frekar opnum og líkir þeim við plástra sem litlu skili.

Breytt viðhorf eftir snjóflóðið 1995

Garðar hefur keyrt þessa leið í áratugi en hann segir viðhorf fólks á norðanverðum Vestfjörðum til snjóflóða hafa breyst eftir flóðið mannskæða í Súðavík 16. janúar 1995, þegar 14 létust.

„Þá breyttist viðhorfið hjá okkur sem búum hérna og ferðumst þessar leiðir á hverjum degi,“ segir Garðar og bendir á að fólk hugi nú frekar að öryggissjónarmiðum.

„Áður þvældumst við hérna eiginlega í hverju sem er. Það var ekkert óalgengt að fólk lokaðist inni á milli flóða en þá var bara komið með moksturstæki og málunum reddað,“ segir Garðar en veginum var haldið mun lengur opnum þá en nú:

„Við vorum margoft að dinglast þarna í hlíðinni. Fólk fór til að komast á ball, labbaði yfir flóð og allt mögulegt var gert. Það voru þeir tímar og þá þekktum við ekki hvað þetta gat verið rosalegt. Það komu stór flóð en alltaf sluppu allir,“ segir Garðar og ítrekar að allt hafi breyst eftir snjóflóðið mannskæða í þorpinu.

„Maður sættir sig við að vera heima ef það er lokað af fenginni reynslu.

Garðar hefur sjálfur oft lent í því að vera fastur annaðhvort á Ísafirði eða heima í Súðavík en segir að þrátt fyrir allt fari þeim skiptum fækkandi. „Ég tel að það sé út af breyttu veðurfari. Núna er til að mynda miður janúar og það eru sæmileg hlýindi og snjómagnið allt annað en það var.“

Hefðu átt að bíða með „dýrasta hringtorg í heimi“

Síðustu jarðgöng á Íslandi voru Dýrafjarðargöngin, sem opnuðu fyrir umferð haustið 2020, en Garðar segir að mun meiri þörf hafi verið á göngum undir Súðavíkurhlíð. „Þau hefðu átt að koma fyrst því þá er þessi leið, norðanverðir Vestfirðir og Reykjavík, miklu öruggari,“ segir Garðar og bætir við að meira þurfi en ein göng til að tengja saman norður- og suðurfirði.

Dýrafjarðargöng voru vígð í október fyrir rúmlega ári.
Dýrafjarðargöng voru vígð í október fyrir rúmlega ári. Ljósmynd/Baldvin

„Núna er flottur vegur frá Ísafirði yfir í Dynjandisvog en þar er fólk eiginlega bara stopp. Dynjandisheiðin er oft ófær og göngin eru ekki að nýtast núna eins og þau eiga eftir að gera,“ segir Garðar en Dýrafjarðargöngin hafa verið kölluð „dýrasta hringtorg í heimi“.

„Göngin hefðu nýst okkur mun betur. Þetta er lífæðin á milli norðurhlutans og Reykjavíkur og er eina varanlega lausnin. Það er svekkjandi að þau séu ekki á dagskrá.“

mbl.is