Margir vilja komast í sólina

Þórunn Reynisdóttir.
Þórunn Reynisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kórónuveirufaraldurinn hefur nú geisað í næstum tvö ár og Íslendinga er farið að þyrsta í sólarlandaferðir og ævintýri utan landsteinanna. Þó að mörgum Íslendingum sé ekki illa við kuldann er alltaf gott að komast til útlanda og fá smá sól í kroppinn.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar, segir mikinn áhuga á utanlandsferðum, sérstaklega þar sem sólin skín allan ársins hring eins og í Portúgal og á Spáni.

„Það er mjög mikið bókað í kringum páskana. Við ætlum að vera bjartsýn á að þetta fari að rúlla af stað,“ segir Þórunn, en aðalbókunartímabil ferðaskrifstofunnar hefst á næstu vikum.

Að sögn Þórunnar er fólk ekki jafn hrætt að ferðast og fyrr í faraldrinum en þó hægist á bókunum þegar hertari samkomutakmarkanir eru boðaðar eins og gerðist nú fyrir helgi.

„Fólk er orðið vant því að vera með grímu, spritta sig og passa sig,“ segir Þórunn og hlær.

Vinsælustu áfangastaðir ferðaskrifstofunnar eru Tenerife, Alicante, Almeria og Portúgal. Þrátt fyrir að margir Íslendingar virðist alveg Tenerife-óðir segist Þórunn telja að það verði mikil dreifing milli áfangastaða. Spurð hvort hún telji líklegt að fólk þurfi að afbóka ferðir með stuttum fyrirvara vegna faraldursins segist Þórunn ekki eiga von á því. Þó sé ómögulegt að segja til um hvað morgundagurinn ber í skauti sér eins og landsmenn þekkja í gegnum faraldurinn.

„Á áfangastöðum okkar er alls staðar verið að gæta að sóttvörnum og fólk er að fara varlega. Þetta er komið á annað ár og þessir aðilar eru vanir að hugsa í hólfum og sóttvörnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert