Andlát: Guðni B. Guðnason

Guðni B. Guðnason.
Guðni B. Guðnason.

Guðni B. Guðnason, fv. kaupfélagsstjóri, lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. janúar sl. á 96. aldursári.

Guðni fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum í Rangárvallarsýslu 1. apríl árið 1926. Foreldrar hans voru Jónína Guðmunda Jónsdóttir frá Austur-Búðarhólshjáleigu í Austur-Landeyjum og Guðni Guðjónsson frá Brekkum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Guðni var þriðji í röð 11 systkina.

Guðni fluttist með foreldrum sínum á fyrsta aldursári til Vestmannaeyja og bjó með þeim í Brattholti í eitt ár en fluttist síðan með foreldrum sínum árið 1927 að Brekkum í Hvolhreppi.

Guðni kvæntist Valgerði Þórðardóttur frá Sléttubóli í Austur-Landeyjum.

Guðni fékkst við ýmis störf frá unga aldri. Bústörf á heimaslóðum, síldveiðar og vegavinnu. Hann sótti nám hjá Sigurði Greipssyni í Haukadal og lærði þar að glíma. Útskrifaðist frá Samvinnuskólanum og tók við prófskírteininu úr höndum Jónasar á Hriflu árið 1947. Árið 1947 hóf Guðni störf í Kaupfélagi Hallgeirseyjar. Í ársbyrjun 1956 varð hann kaupfélagsstjóri kaupfélagsins Bjarkar á Eskifirði allt til ársins 1962 en þá fluttu þau Valgerður til Vestmannaeyja og var Guðni kaupfélagsstjóri þar til loka árs 1972 þegar hann varð aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og gegndi því starfi til aprílloka árið 1992. Samhliða starfi kaupfélagsstjóra í Vestmannaeyjum kenndi hann bókfærslu í gagnfræðaskólanum, iðnskólanum og stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum.

Guðni gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Var stjórnarformaður Umf. Baldurs á Hvolsvelli um árabil, stjórnarformaður Verslunarmannafélags Rangæinga, sat í stjórn Hraðfrystihúss Eskifjarðar, var í stjórn félagsheimilisins Valhallar á Eskifirði og stjórnarformaður Sunnlendingafélagsins í Vestmannaeyjum.

Guðni og Valgerður fluttu í Kópavoginn árið 1999 en hún lést árið 2005. Þau eignuðust þrjá syni en þeir eru: Gunnar, arkitekt í Reykjavík, Þórólfur, barnalæknir og sóttvarnalæknir, og Guðni Björgvin, tölvunarfræðingur og ráðgjafi í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »