Foreldrar biðji um nefkokssýni

Um helmingur þeirra sem sækja nú sýnatöku eru börn á …
Um helmingur þeirra sem sækja nú sýnatöku eru börn á grunnskólaaldri. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Löng röð myndaðist við sýnatöku við Suðurlandsbraut snemma í morgun en að sögn Ingibjargar Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, var gríðarlegur fjöldi fólks mættur á slaginu átta til að fara í hraðpróf. Telur hún líklegt að fjöldinn hafi numið ríflega þúsund.

„Þetta var okkar akkilesarhæll í dag,“ segir Ingibjörg og vísar þá til raðamyndunar vegna hraðprófa snemma í morgun þegar blaðamaður spyr hvernig sýnatakan hafi gengið framan af degi.

Ríflega 1.500 manns munu þurfa að gangast undir hraðpróf í dag vegna smitgátar en auk þeirra hafa um 600 bókað sig til viðbótar. Segir Ingibjörg að mikill meirihluti þeirra hafi mætt milli klukkan átta og tíu í morgun. 

Breytt fyrirkomulag léttir undir

Röðin í PCR-próf hefur þó ekki verið jafn umfangsmikil þrátt fyrir mikla aðsókn í dag en um fimm þúsund eru skráðir í sóttkvíar- og einkennasýnatöku, þar af eru ríflega þúsund börn átta ára og yngri.

Sóttvarnalæknir tók ákvörðun fyrr í vikunni um að nóg væri að taka strok úr munni barna átta ára og yngri, fyrir PCR-prófin. Var þetta gert til að auðvelda börnum að gangast undir sýnatöku og einnig til að létta undir álagi á starfsfólk.

Spurð hvort að breytt fyrirkomulag hafi komið til með að auðvelda sýnatökuferlið, bæði fyrir börn og fullorðna, segir Ingibjörg svo vera. Aftur á móti eru enn foreldrar sem kjósi frekar gömlu aðferðina þó það raddirnar sem mótmæli henni séu háværari.

„Það er líka fullt af foreldrum sem vilja láta taka nefkokssýni og biðja bara um það [...] Nú höfum við bara leyfi til þess að gera þetta öðruvísi ef foreldrar vilja,“ segir Ingibjörg og bætir við að nefkokssýnin séu mun áreiðanlegri og því sé mælt með þeim fyrir þá sem sýna einkenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert