Sýnataka meðal barna verður með breyttu sniði

Mörg börn hafa þurft að gangast undir sýnatöku undanfarna daga. …
Mörg börn hafa þurft að gangast undir sýnatöku undanfarna daga. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytt fyrirkomulag á sýnatökum meðal barna fædd árið 2013 og síðar mun taka gildi á morgun en framvegis verður ekki nauðsynlegt að taka nefkokssýni í PCR-prófum heldur verður einungis gerð krafa um stroku úr koki eða munni. Þetta staðfestir Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, en ákvörðunin var tekin í dag af sóttvarnalækni.

Vonir eru bundnar við að með breyttu fyrirkomulagi muni sýntakan ganga hraðar fyrir sig, minnka álag og sömuleiðis auðvelda starfsfólki og börnum fyrir þegar stroka er tekin. 

Að sögn Ingibjargar munu niðurstöður ekki reynast jafn nákvæmar og áður þegar að sýni voru tekin úr nefkoki en engu að síður er þetta nauðsynlegt skref þar sem álag á sýnatökustaði hefur aukist til muna í takt við fjölgun smita í samfélaginu.

Skipa börn stóran hluta þeirra sem sæta sóttkví og einangrun en á hverjum degi mæta um 500 til 600 börn, átta ára og yngri, í sýnatöku. Þegar mest lætur er fjöldinn þó nær þúsund. Myndast þá langar raðir þar sem erfitt er að vinna á enda krefst sýnataka meðal yngstu barnanna mun meiri tíma og þolinmæði en gengur og gerist meðal fullorðinna.

„Það er ekki hægt að hlaupa hraðar en við erum samt að reyna að finna lausnir. Vonandi hjálpar þetta okkur.“

Hraðpróf með óbreyttu sniði

Nýtt fyrirkomulag mun einungis eiga við um þau börn sem eru með einkenni eða eru í sóttkví og þurfa því að gangast undir PCR-próf, en ekki þau sem eru í smitgát þar sem þau gangast einungis undir hraðpróf.

Má ástæðuna rekja til gæði prófanna þar sem hið fyrrnefnda er mun nákvæmara og því meiri líkur á að veiran greinist þó svo að ekki sé tekið nefkokssýni.

Spurð hvort hún telji líklegt að mun fleiri muni skrá sig í PCR-próf í stað hraðprófs í ljósi breytts fyrirkomulags, kveðst Ingibjörg ekki eiga von á því þar sem nú þegar séu svo margir í sóttkví eða með einkenni – og þar af leiðandi skráðir í PCR-próf.

Starfsfólk bugað

Að sögn Ingibjargar hefur þreyta og mikið álag gert það að verkum að sífellt erfiðara verður að manna vaktir á sýnatökustöðum.

„Þetta eru ekki auðveldar vinnuaðstæður. Álagið hefur aukist gífurlega á Suðurlandsbrautinni og líka um allt land. Bæði á börn og fullorðna. Það er ekkert launungarmál að við erum orðin mikið þreytt. Fólkið sem er að vinna á gólfinu hefur þurft að bæta í, vinna meira og hraðar. Álagið hefur aukist mikið síðustu vikur. Við játum það að við erum orðin buguð,“ segir Ingibjörg.

Fólk hvatt til að mæta á réttum tíma

Um fimm þúsund mættu í PCR-próf í dag og ríflega þúsund til viðbótar í hraðpróf. Að sögn Ingibjargar eru raðir fljótar að myndast klukkan átta á morgnanna þar sem stór hluti þeirra sem eiga bókað virða ekki þann tíma sem þeir fá úthlutaðan. Skapar þetta enn meira álag.

„Fólk mætir klukkan átta þó það eigi tíma eftir hádegi. Það eykur svo svakalega á raðamyndun og eykur líkur á því að þeir sem eiga tíma klukkan átta komist ekki á réttum tíma. Kannski helmingurinn af fólkinu á tíma seinnipartinn. Það er augljóst að við getum engan veginn sinnt þúsund manns klukkan átta,“ segir Ingibjörg sem hvetur fólk að virða tímamörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert