Mörg jákvæð skref hafi verið stigin

Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað.
Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þriðja allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála (e; Universal Periodic Review eða UPR) á Íslandi fór fram á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss í dag. Fyrsta úttektin á stöðu mála á Íslandi var 2011 og önnur 2016. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Úttektin byggir á jafningjarýni ríkja sem felst í því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fara yfir stöðu mannréttindamála hvers aðildarríkis og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. Markmiðið er meðal annars að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og að hvetja ríki til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra leiðir ís­lensku sendi­nefndina, sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Sendinefndin er einnig skipuð Bryndísi Hlöðversdóttur, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, ásamt fulltrúum stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi.

Gagnrýni tekið með opnum huga

Í opnunarávarpi sínu sagði Katrín að gagnrýni væri tekið með opnum huga með það að leiðarljósi að bæta stöðu mannréttinda hér á landi. Mörg jákvæð skref hafi verið stigin í átt að aukinni vernd mannréttinda á Íslandi frá síðustu úttekt. Mörg mikilvæg mál hefðu orðið að lögum; ný jafnréttislöggjöf hefði litið dagsins ljós, lög um kynrænt sjálf­ræði og lög um jafna með­ferð á vinnu­markaði. Langtíma þjónustusamningar hafi verið undirritaðir við félagasamtök sem sinna mannréttindamálum auk þess sem ný framkvæmdaáætlun um jafnréttismál hafi verið samþykkt.

Þá hafi Ísland fullgilt ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttindamála og fjölmargar aðgerðir verið innleiddar til að vinna gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í kjölfar fullgildingar Istanbúl-samningsins.

Lögfesting Samningsins um réttindi fatlaðs fólks væri jafnframt í undirbúningi og á­kveðið hefði verið að setja á fót nýja sjálfstæða innlenda Mannréttindastofnun, en Ísland hefur hlotið tilmæli þess efnis í síðustu úttektum.

Fyrirtakan byggir á skýrslu þar sem er farið yfir hvernig íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir þeim tilmælum sem þau fengu í síðustu allsherjarúttekt ásamt yfirliti yfir tilmælin og stöðu innleiðingar þeirra.

mbl.is