Fylgikvillar af völdum sýkingar margfalt meiri

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Alma Möller landlæknir var spurð á upplýsingafundi almannavarna hvort hún geti ábyrgst skaðleysi bóluefna gegn Covid-19 þegar kemur að börnum.

Hún sagði það augljóst að landlæknir muni ekki ábyrgjast skaðleysi enda sé það vitað að öll bóluefni hafi aukaverkanir.

Í þessu tilfelli séu aukaverkanir hjá börnum aftur á móti fátíðar en fylgikvillar af völdum Covid-sýkingar í staðinn margfalt meiri en af bólusetningum.

Hún var einnig spurð hvort embætti landlæknis væri eingöngu að framfylgja samningi við lyfjarisa með bólusetningunum. Alma sagði samningana á sviði sóttvarnalæknis en tók fram að að sjálfsögu sé ekki verið að bólusetja til að uppfylla neina samninga, heldur sé það gert með hag barnanna í huga.

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Almannavarnir

Bóluefnin ekki misheppnuð

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var einnig spurður hvort bóluefnin séu ekki misheppnuð í ljósi mikilla smita þrátt fyrir grímuskyldu og víðtækar bólusetningar. Hann sagði flest bóluefni koma í veg fyrir smit en að bóluefnin gegn kórónuveirunni séu ekki eins góð til þess. Þau séu aftur á móti góð til að koma í veg fyrir alvarleg einkenni.

Vissulega hefði hann viljað sjá bólusetningarnar koma í veg fyrir fleiri smit en að það hafi sést, bæði á Landspítalanum og í rannsóknum erlendis, að þau eru góð til að koma í veg fyrir alvarleg einkenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert