Hjarðónæmi eftir einn og hálfan til tvo mánuði?

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það gæti tekið um einn og hálfan til tvo mánuði að ná upp hjarðónæmi hér á landi miðað við forsendur um að 80% þjóðarinnar þurfi að smitast af Covid-19 til að ná hjarðónæmi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna.

Þetta miðast við ef fjöldi daglegra smita verður svipaður og verið hefur. Hann áréttaði þó að taka þurfi þessum útreikningum með fyrirvara. Miðað við þessa „hugarleikfimi“ er samt líklega ekki langt í land að faraldrinum fari að slota, bætti hann við. 

Þórólfur minntist á bráðabirgðaniðurstöður úr samstarfsverkefni Íslenskrar erfðagreiningar og embætti landlæknis í þessu samhengi sem sýndu að um helmingi fleiri gætu hafa smitast af veirunni en hafa greinst.

Þórólfur kvaðst vongóður um að betri tíð sé innan seilingar en mikilvægt sé að halda vel á spilunum varðandi afléttingar. Ekki skuli farið of hratt í þær heldur í nokkrum skrefum, annars sé hætta á bakslagi.

Hann hvatti fólk með einkenni til að fara í sýnatöku og einnig til að kynna sér reglur um smitgát í ljósi breyttra sóttvarnareglna. 

Þórólfur sagði fáa þurfa að leggjast inn á gjörgæslu vegna Covid-tengdra veikinda. Rúmlega 90% sem eru að greinast, eru smituð af Ómíkron-afbrigðinu. Um 0,2% þeirra sem greinast með kórónuveiruna þurfa að leggjast inn.

Hann benti jafnframt á að uppgjör Landspítalans hafi sýnt að alvarlegum veikindum hefur fækkað með tilkomu Ómíkon-afbrigðisins. Sérstaklega hafi komið í ljós að örvunarbólusetning dregur mjög úr alvarleika Covid-19.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert