Segir frá ofbeldi fjallaleiðsögumanns

Maðurinn er fjallaleiðsögumaður. Mynd úr safni.
Maðurinn er fjallaleiðsögumaður. Mynd úr safni. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Í tvö ár var ég í ofbeldissambandi með manni sem um þessar mundir fer mikið fyrir í fjallaheiminum. Ég var beitt miklu andlegu ofbeldi sem einnig var á tímum líkamlegt og kynferðislegt.“ Þetta kemur fram í facebookfærslu konu í hópnum Fjallastelpur þar sem hún lýsir ofbeldi af hendi fjallaleiðsögumanns, Tomaszar Þórs Verusonar.

Fjöldi fyrirtækja hefur dregið samstarf við manninn til baka eftir að konan sagði frá reynslu sinni.

Meðal fyrirtækja sem slíta samstarfi við Tomasz er GG-sport, að því er fram kemur í facebookfærslu fyrirtækisins.

Konan gaf mbl.is leyfi til að vísa í frásögn hennar.

Hún lýsti því að Tómasz hefði nálgast hana þegar hún var kúnni hjá honum í fjallaverkefni, að hann hefði beitt hana ofbeldi og ítrekað hótað að svipta sig lífi.

Hún lýsir tímanum sem þeim erfiðasta og myrkasta í lífi sínu.

Óttast öryggi sitt

„Ég og aðrar konur (við erum fleiri en ein, tvær og þrjár) höfum síðustu ár þurft að horfa upp á ofbeldismann okkar taka ítrekað fyrir ný fórnarlömb ásamt því að sjá bæði andlit hans og nafn prýða hina ýmsu miðla og koma fram í auglýsingum,“ skrifar konan.

Hún segir slíkt eðlilega vekja slæmar tilfinningar og í hennar tilfelli áfallastreitu. Einnig hafi hún óttast um öryggi sitt og fjölskyldu og vina og því kosið að segja sögu sína á annan hátt en opinberlega.

Tómasz Þór Veruson.
Tómasz Þór Veruson. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tveggja ára samband komst konan að því að Tómasz hafði verið í ástarsambandi með annarri stelpu úr sama fjallahópi og þeim þar sem þau höfðu kynnst. Þegar hún loks náði að losa sig úr sambandinu komst hún að því að talan var töluvert hærri og einnig komu fleiri í kjölfar hennar.

Sakaði hana um framhjáld og vændi

Fljótlega í sambandinu fór hann að saka hana ítrekað um framhjáhald og vændi og hótaði að svipta sig lífi ef hún gerði ekki nákvæmlega það sem hann vildi. Hún segir hann hafa notað þá tækni oft, sérstaklega ef hún var að fara að umgangast annað fólk:

„Hann vildi stjórna nákvæmlega hver var í mínu lífi og hvar ég var. Helst átti ég ekki að umgangast neinn nema hann. Sú var oft raunin þar sem ég einangraðist mikið á tímabili og hætti að hitta ákveðna vini af ótta við hans viðbrögð. Mér fannst ég vera að gera eitthvað rangt ef ég hitti góða vini mína sem hann kunni ekki við,“ skrifar konan.

Hann stjórnaði samfélagsmiðlanotkun konunnar, sem leið alltaf eins og hann væri að fylgjast með sér, öllum stundum. Hún mátti ekki birta myndir af honum á samfélagsmiðlum en eftir eins og hálfs árs samband birti hún mynd á Instagram þar sem sást í hann í bakgrunni.

„Hann hótaði að drepa sig ef ég myndi ekki taka þetta strax út,“ skrifar konan og heldur áfram: „Ég held að ég hafi á þessum tíma sett myndina inn til að komast nær sannleikanum, vildi fá viðbrögð ef það væru fleiri konur sem hann væri að sækja í.“

Marga mánuði að koma sér út úr vítahringnum

Konan lýsir því að hún hafi verið í marga mánuði að koma sér út úr vítahringnum og hætta með honum. Eitt skiptið eftir að hún hætti með honum sat hann fyrir utan íbúð hennar og beið eftir að hún kæmi heim.

„Hann kom á eftir mér og ruddist inn til mín þegar ég opnaði útidyrnar. Hann gekk það harkalega í skrokk á mér að önnur hlið líkama míns varð blá og marin. Þarna var ég um 48 kg og ég tók á öllu mínu til að verjast honum, tveggja metra háum manni í miklu uppnámi. Íbúðin var einnig illa leikin og braut hann m.a. sófa, myndir og tók símann minn. Hann segir svo við mig að næstur á dagskrá sé góður vinur minn,“ skrifar hún.

Hann fór og sagðist ætla að svipta sig lífi. Konan hringdi í lögreglu um leið og bað um að hans yrði leitað og haft var uppi á honum stuttu síðar þar sem hann var í góðum gír og ekkert virtist að.

„Á þessum tíma, eftir marga mánuði af miklu andlegu ofbeldi, var ég viss um að ég hefði drepið hann. Að það væri mín sök að honum liði svona illa og að hann vildi drepa sig. Í dag veit ég að hann hafði auðvitað aldrei hug á því að standa við þær hótanir heldur notaði þetta sem stjórntæki þegar ég hagaði mér ekki eins og ég „átti að gera“ eða þegar ég gekk á hann með aðrar konur.“

Eftir að sambandinu lauk hafi konan áttað sig á því að um ofbeldissamband var að ræða. Þá segir hún manninn einnig hafa neytt sig til að gera kynferðislega hluti með honum sem hana langaði ekki að gera.

„Það hefur valdið mér mikilli vanlíðan að sjá andlit hans og nafn poppa upp og ég veit að ég er ekki eina konan um að upplifa það,“ skrifar konan.

mbl.is

Bloggað um fréttina