Stormur skellur á í kvöld

Viðvaranir taka gildi í kvöld.
Viðvaranir taka gildi í kvöld.

Búast má við norðvestanstormi eða -roki á norðan- og austanverðu landinu í kvöld og fram til hádegs á morgun, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Sömuleiðis gerir veðurstofan ráð fyrir hríð norðanlands.

Þá má búast við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Gular viðvaranir taka gildi víða um land í kvöld, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi. 

Lægð nálægt Vestfjörðum

„Skammt vestan við Vestfirði er 984 mb lægð sem veldur því að á landinu er suðvestan 8-15 m/s og víða él, en með morgninum mun birta til norðaustanlands. Er líður á daginn mun lægðin fara austur með norðurströndinni og því er von á skammvinnu norðanáhlaupi síðdegis og í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

„Norðan og norðvestan 15-23 m/s og snjókoma og því munu viðvaranir vegna hríðar taka gildi fyrir norðanvert landið undir kvöld. Í nótt og í fyrramálið má síðan búast við norðvestanstormi á Austfjörðum og á Suðausturlandi með tilheyrandi vindaviðvörunum en á sama tíma dregur úr vindi í öðrum landshlutum.“

Þá er von á suðvestan 5 til 13 metrum á sekúndu og éljum á morgun en þá léttir að sama skapi til norðaustan- og austanlands.

„Hiti verður yfirleitt í kringum frostmark í dag og á morgun, en þó verður heldur kaldara meðan norðanáttin verður ríkjandi á landinu.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is