Tomasz Þór gengst við ásökunum um ofbeldi

Tomasz Þór Veruson.
Tomasz Þór Veruson. Ljósmynd/Aðsend

Tomasz Þór Veruson leiðsögumaður hefur gengist við ásökunum um ofbeldi, meðal annars af hálfu fyrrverandi kærustu sinnar Vilborgar Örnu Gissurardóttur pólfara. 

Önnur fyrrverandi kærasta Tomaszar greindi sömuleiðis frá ofbeldi af hans hálfu inni á facebookhópnum Fjallastelpum. 

Í færslu á facebooksíðu sinni segist Tomasz gangast við umræddum ásökunum og að hann eigi sér engar málsbætur. 

„Á þessum tíma var ég af ýmsum ástæðum á vondum stað andlega sem rekja má til áfalla í æsku. Það afsakar þó á engan hátt framkomu mína í garð þeirra sem lýst hafa vanlíðan sinni í erfiðu sambandi við mig. Á því tek ég fulla ábyrgð. Ég lét vanlíðan mína bitna á öðrum í stað þess að leita mér aðstoðar,“ skrifar Tomasz. 

Tomasz segist hafa leitað sér faglegrar aðstoðar síðustu þrjú ár með markvissum hætti. Hann vilji vera betri maður og geta átt í heilbrigðum samböndum. 

„Ég hef beðið þolendur mína afsökunar, bæði áður og eftir að samböndum og öllum samskiptum lauk og geri það hér með aftur,“ skrifar Tomasz, sem jafnframt biður starfsfólk og viðskiptavini útivistarfélagsins Af stað afsökunar á „verulegum óþægindum sem atburðarás síðustu daga hefur haft í för með sér“.

mbl.is