Hundruð afganskra dýra lentu á Íslandi í dag

Hundar og kettir verða fluttir frá Afganistan til Kanada þar …
Hundar og kettir verða fluttir frá Afganistan til Kanada þar sem þeir fá nýtt heimili. AFP

Rússnesk flutningavél, full af hundum og köttum frá Afganistan, millilenti á Keflavíkurflugvelli klukkan fimm í morgun. 

Alþjóðlegu dýrahjálparsamtökin SPCA International hafa unnið hörðum höndum að því að bjarga 158 hundum og 146 köttum sem eiga engan samastað í Kabúl.

Dýraathvarfið í Kabúl gat ekki komið dýrunum úr landi þegar talíbanar tóku völdin í ágúst en um er að ræða villt dýr og dýr sem áður áttu heimili hjá fjölskyldum sem hafa flúið landið.

Vélin lenti á Íslandi eftir að hafa millilent í Prag, á leið sinni frá Afganistan, en nú er hún á leið á endanlegan áfangastað: Vancouver í Kanada.

Mikill órói skapaðist á flugvellinum í Kabúl í ágúst, þegar …
Mikill órói skapaðist á flugvellinum í Kabúl í ágúst, þegar talíbanar tóku völdin. AFP

Héngu á flugvellinum í marga mánuði

Stofnandi athvarfsins, Charlotte Macwell-Jones, vakti heimsathygli á málinu á Twitter. Í ágústmánuði mætti hún með fjölda dýra við landamærin, í von um að komast úr landi, en herinn þvingaði hana þá til að sleppa öllum dýrunum lausum á flugvellinum.

Sum þeirra hurfu og sum héngu á flugvellinum í marga mánuði. Í samstarfi við ýmis dýraverndarsamtök tókst henni þó að landa rússneskri Il-76 þotu í verkið nú í janúar. 

Sum dýranna voru áður gæludýr sendiráðsstarfsmanna. Um 80 gæludýrum verður skilað til fyrri eigenda en önnur eru í leit að nýju heimili í Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert