Á þriðja hundrað koma að leitinni

Landsbjörg að störfum.
Landsbjörg að störfum.

Fyrstu hópar björgunarsveita eru farnir út úr húsi vegna lítillar flugvélar með fjóra um borð sem er saknað.

„Við erum að vinna náið með lögreglunni og Landhelgisgæslunni í að skipuleggja þessa leit,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, úr Árnessýslu og á Suðurnesjum hafa verið kallaðar út. Meðal annars hefur fólk verið sent út á björgunarsveitarbílum og öðrum farartækjum. „Þegar svona verkefni byrjar getur leitarsvæðið verið stórt þangað til búið er að þrengja það með meiri upplýsingum,“ segir hann.

Uppfært kl. 15.56:

Vel á þriðja hundrað manns koma að leitinni að flugvélinni sem er saknað eftir að hafa tekið á loft frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í morgun.

Þar af eru rúmlega 200 björgunarsveitarmenn. Aðrir sem leita eru meðal annars frá Landhelgisgæslunni og lögreglunni, að sögn Davíðs Más.

Reynt er að afla upplýsinga til að þrengja leitarsvæðið og hafa tugir leitarhópa sinnt eftirgrennslan víða um suðversturhornið. Meðal annars hefur verið leitað á flugvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert