Leita í Þingvallavatni vegna nýrrar vísbendingar

Frá leitinni í Þingvallavatni.
Frá leitinni í Þingvallavatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísbending sem barst viðbragðsaðilum við Þingvallavatn í morgun varð til þess að bátaflokkar Landsbjargar og séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hafa verið ræst út. Þá mun kafbátur einnig leita í Þingvallavatni. Vísbendingin tengist símagögnum.

Viðbragðsaðilar frá björgunarsveitum og Landhelgisgæslu leggja nú mikið kapp á að finna flugvél með fjóra innanborðs sem ekki hefur spurst til síðan klukkan 11:45 fyrir hádegi í gær. 

„Þetta er ein af fjölmörgum vísbendingum sem hafa borist,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. 

„Til þess að fylgja henni eftir hafa verið kallaðir út bátaflokkar á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og séraðgerðarsveit gæslunnar með sérstakan neðansjávarbúnað. Sömuleiðis hefur tæknifyrirtækið Gavia verið fengið til þess að koma með fjarstýrðan neðansjávarkafbát til þess að kanna þessa vísbendingu.“

Hvernig vísbending er þetta?

„Þetta er vísbending varðandi símagögn án þess að hægt sé að fara nánar út í það.“

Leita í Þingvallavatni

Bátaflokkarnir, séraðgerðasveitin og neðansjávarkafbáturinn munu leita í Þingvallavatni en eins og fram kom í samtali mbl.is við upplýsingafulltrúa Landsbjargar fyrr í morgun beinist leitin að suðurhluta Þingvallavatns.

„Það er verið að skoða þann stað eins og aðra. Þetta er á þeim slóðum sem mesti þungi leitarinnar hefur beinst að,“ segir Ásgeir.

Björgunarsveitarmenn við sunnanvert Þingvallavatn í morgun.
Björgunarsveitarmenn við sunnanvert Þingvallavatn í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar er farin í loftið til þess að aðstoða við leitina en hin fer í loftið von bráðar. Á fimmta hundrað björgunarsveitamanna koma að leitinni sem stendur sem og lögregla, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar og þyrlusveit og starfsfólk í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

Björgunarsveitarmenn með dróna í morgun.
Björgunarsveitarmenn með dróna í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki vitað hvers vegna ekkert neyðarkall barst

Fjórir, þar af þrír erlendir ferðamenn og íslenskur flugmaður, voru um borð í flugvélinni sem síðast sást til fyrir tæpum sólarhring síðan. Aðspurður segist Ásgeir ekki geta gefið upp hvaðan fólkið er. 

Þá er ekki vitað hvers vegna ekkert neyðarkall kom frá vélinni. 

Í gærkvöldi heyrðist í neyðarsendi yfir Kleifarvatni. Hann reyndist ekki tilheyra vélinni sem leitað er að. 

„Það reyndist vera neyðarsendir úr björgunarbát, alveg ótengt þessu máli. Það var hrein og klár óheppni að það skyldi koma akkúrat á þessum tímapunkti,“ segir Ásgeir. 

Björgunarsveitir leituðu fram á nótt og hófst leit aftur í …
Björgunarsveitir leituðu fram á nótt og hófst leit aftur í morgun. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert