Á rétt á upplýsingum um flugmann vélar sem fórst

Flugvélin hífð upp úr Þingvallavatni eftir að hafa legið á …
Flugvélin hífð upp úr Þingvallavatni eftir að hafa legið á botni þess í tæpa þrjá mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samgöngustofa fór ekki að lögum þegar föður manns sem lést í flugslysi á Þingvallavatni á síðasta ári var neitað um gögn sem varða málefni flugmannsins og eru hluti af rannsókn stofnunarinnar á honum og fyrirtæki hans.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála komst að þeirri niðurstöðu og vísaði málinu aftur til efnislegrar meðferðar Samgöngustofu. 

Grunur leikur á að afdrifarík flugferð TF-ABB hafi verið utan þess ramma sem fyrirliggjandi leyfi afmörkuðu.

Meðal annars á grundvelli almannahagsmuna 

Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa lítur meðal annars að því að vélinni hefði verið flogið í mjög lítilli hæð yfir vatninu skömmu áður en hún lenti í því.

Faðirinn óskaði til að mynda eftir upplýsingum um hugsanleg stjórnsýsluviðurlög gagnvart flugmanninum eða félagi hans vegna brota um flugrekstur og öllum ákvörðunum Samgöngustofu hvað þau varðar.

Í svari Samgöngustofu sagði að stofnunni væri ekki heimilt að afhenda gögn sem tengdust eftirliti hennar á flugmanninum og félagi hans. Þá kom fram að Samgöngustofa hafi hvorki haft félagið til eftirlits né beitt flugmanninn stjórnsýsluviðurlögum.

Faðirinn kærði niðurstöðu Samgöngustofu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál meðal annars á grundvelli almannahagsmuna þar sem málið gæti varðað flug- og almannaöryggi.

Úrskurðarnefndin féllst á það og vísaði mállinu aftur til Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert