Kærir aðgerðir lögreglu

Aðalsteinn hefur kært lögreglu fyrir að veita honum stöðu sakbornings.
Aðalsteinn hefur kært lögreglu fyrir að veita honum stöðu sakbornings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, hefur kært aðgerðir lögreglu í rannsókn máls er varðar umfjöllun um „skæruliðadeild Samherja“. Þessu greinir hann frá í pistli á vef Stundarinnar.

Hefur lögmaður Aðalsteins afhent héraðsdómi Norðurlands eystra kæru fyrir sína hönd þar sem hann fer fram á að úr lögmæti „aðgerða lögreglu“ verði skorið en Aðalsteinn er á meðal þeirra fjögurra blaðamanna sem fengu stöðu sakbornings og voru yfirheyrðir vegna rannsóknar málsins.

Að rannsaka blaðamenn hafi áhrif á rétt almennings til upplýsinga

Tekur Aðalsteinn fram í pistlinum að hann sé ekki hafinn yfir lög og segir eðlilegt að lögreglan rannsaki „glæpi“ og að þeir sem telja á sér brotið leiti réttar síns. Hann krefjist þess ekki að lögreglan víki frá lögum eða dómaframkvæmd.

Reifar hann að þó hafi íslenska ríkið ítrekað gerst brotlegt við eigin lög gagnvart blaðamönnum samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu en hann hafi slegið á fingur ríkja sem setja blaðamenn á sakamannabekk fyrir að vinna vinnuna sína. 

„Bara sú aðgerð, þó ekki fylgi ákæra og dómur, er sögð af dómum hafa áhrif á rétt almennings til upplýsinga,“ skrifar Aðalsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert