Föst viðvera herliðs á Íslandi hafi fælingarmátt

„Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands,“ segir Baldur Þórhallsson.
„Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands,“ segir Baldur Þórhallsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, telur að föst viðvera varnarliðs á Íslandi myndi fæla óvinasveitir frá árás gegn landinu. Þá segir hann að sérsveit ríkislögreglustjóra myndi ekki geta varist erlendum óvinaher lengi, jafnvel þó að hann væri smár.

Þetta gerir hann að umtalsefni sínu í færslu á Facebook.

Tilefni færslu Baldurs er innrás Rússlands í Úkraínu, sem ekki er í Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hann ber löndin tvö saman í færslunni og segir Ísland og Úkraínu „eiga allt sitt undir því að vera í pólitísku skjóli voldugra ríkja eða ríkjabandalaga. Löndin tvö hafa ekki burði til að verja sig sjálf. Þess vegna gekk Ísland á sínum tíma í NATO og Úkraína sækist eftir aðild að bandalaginu.“

Hætt við að sérsveit ríkislögreglustjóra dugi skammt

Í færslu á Facebook segir Baldur að ekki þyrfti fjölmennt erlent óvinalið til þess að taka yfir lykilstofnanir landsins.

„Föst viðvera öryggissveita eða herafla frá aðildarríkjum NATO er forsenda þess að fæla óvinveittan aðila frá því að ráðast á landið. Líklega þarf ekki nema áhöfn eins kafbáts eða einnar lúxussnekkju rússnesks auðjöfurs - sem lóna fyrir utan hafnir landins öll sumur - til að taka yfir helstu stofnanir landsins. Skyndiárásum verður að vera hægt að bregðast við þegar í stað. Hætt er við að sérsveit ríkislögreglustjóra geti ekki lengi varist innrás hersveitar þó að lítil sé. Öflugar varnarsveitir verða að vera til staðar. Það getur verið of seint eða mjög dýrkeypt að bregðast við að nokkrum klukkustundum liðum þegar helstu stofnanir landsins eru komnar í hendur óvinasveitar,“ skrifar Baldur. 

Baldur segir að tími sé kominn til þess að ræða þessi mál af alvöru. 

„Nú hefur rússneski björninn vaknað úr dvala. Það kallar á að látið verið af þeim tepruskap sem einkennir umræðuna um varnarmál hér á landi. Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina