Myndband sem sýnir árás meðal rannsóknargagna

Myndband sem gengið hefur á milli fólks á samfélagsmiðlum og sagt er sýna stunguárásina í Austurstræti í Reykjavík aðfaranótt laugardags er meðal þess sem lögreglan er með til rannsóknar vegna málsins. Lítið annað fæst uppgefið um rannsóknina og ekki heldur hvort einhverjir séu í haldi vegna málsins.

Einar Guðberg hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við mbl.is að hann geti ekki tjáð sig um rannsóknina á þessu stigi. Hann staðfestir að enginn hafi verið hnepptur í gæsluvarðhald vegna málsins, en vildi ekki segja hvort einhverjir hefðu verið handteknir eða hvort lögreglan vissi hverjir hefðu verið að verki.

Segir hann rannsókn lögreglu vera í fullum gangi en að ekkert sé hægt að gefa upp að svo stöddu.

Árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn 203 Club í Austurstræti og var ungur maður um tvítugt stunginn nokkrum sinnum í bakið. Móðir mannsins tjáði sig um árásina á Facebook um helgina og sagði hún þar að syninum hefði vart verið hugað líf til að byrja með, en að hann væri nú kominn úr lífshættu. Sagði hún son sinn hafa reynt að stöðva önnur slagsmál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert