Aðeins gerst fimm sinnum

Vígahnöttur. Mynd úr safni.
Vígahnöttur. Mynd úr safni. Ljósmynd/Twitter

Smástirni sprakk í gærkvöldi fyrir norðan Íslandsstrendur með miklum krafti eða sem samsvarar tveimur til þremur þúsund tonnum af dínamíti.

Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, segist hafa fengið senda vitnisburði að norðan þar sem fólk lýsir því hvernig það varð vart við blossa í gærkvöldi.

Sævar segir að það sem gerir þetta smástirni merkilegt er að þetta er eitt af fáum skiptum sem smástirni af þessari stærð finnst áður en það springur í lofthjúpi jarðar.

Algjör tilviljun

„Það hefur núna komið fimm sinnum fyrir að stjörnufræðingar hafa fundið stein skömmu áður en hann springur í andrúmsloftinu okkar eða skellur á jörðinni," segir Sævar. 

„Þá vitum við nákvæmlega hvert hann fellur og þá er hægt að gefa út viðvaranir þess vegna ef þeir eru nógu stórir,“ segir hann og bætir því við að það hafi verið algjör tilviljun að smástirnið hafi fundist.

Hefðbundin stjörnuhröp á stærð við rykkorn

Aðspurður segir Sævar smástirnið vera tiltölulega lítið, um 3-4 metrar í þvermál, en miðað við hefðbundið stjörnuhrap er það mun stærra.

„Slík stjörnuhröp eru kannski á stærð við rykkorn svo þetta er miklu stærra en það.“

„Hefði þetta fallið yfir Íslandi eða nær, þá hefðum við verið vör við alveg stórglæsilegan og mjög bjartan vígahnött. Svo hefðu molarnir úr steininum dreifst yfir Ísland, en það gerðist sem betur fer ekki.“

Sævar segir að samskonar smástirni hafi sprungið yfir Íslandi í ágúst árið 1976.

„Þetta var kallaður verslunarmannahelgar-steinninn því fólk var úti og varð vart við hann um allt land og hann skildi eftir sig mjög áberandi slóð.“

Þekkt að sprengingin finnist á mælum

Sævar segir aflið sem fylgir svona sprengingu vera talsvert og möguleiki á að sprengingin hafi komið fram á jarðskjálftamælum.

„Það er alveg þekkt, það koma reglulega höggbylgjur sem koma vel fram á skjálftamælum og miklar drunur jafnvel þótt að steinarnir séu litlir.“

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. Mbl.is/ Kristinn Magnússon

Sem betur fer afar sjaldgjæft

Aðspurður segir Sævar smástirni þurfa vera um 50 metrar í þvermál til þess að komast í gegnum lofthjúpinn og springa á yfirborði jarðar.

„Sem betur fer er það mjög sjaldgæft að það gerist. Það væri ekki gott fyrir neinn,“ segir Sævar og hlær.

Hann bætir því við ef horft er til loftsteina sem hafa haft gríðarleg áhrif á jarðsöguna, til dæmis loftsteininn sem útrýmdi risaeðlunum, þá hafi hann verið um 15 kílómetrar í þvermál, eða tæplega tvöfalt stærri en fjallið Everest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert