Skellur á um klukkan níu

Viðvaranirnar taka gildi klukkan níu eða síðar í dag.
Viðvaranirnar taka gildi klukkan níu eða síðar í dag. Skjáskot

Gular eða appelsínugular veðurviðvaranir taka gildi á landinu öllu í dag. 

Spáir veðurstofan suðaustan og sunnan 20 til 28 metrum á sekúndu með slyddu að fyrstu en síðar talsverðri rigningu á láglendi. Snýst í allhvassa suðvestanátt vestanlands í kvöld með skúrum eða slydduéljum.

Búast við vatnavöxtum

Á höfuðborgarsvæðinu og við Faxaflóa tekur appelsínugul veðurviðvörun gildi klukkan níu. Segir á heimasíðu Veðurstofunnar að búast megi  við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll staðbundið yfir 35 metrum á sekúndu t.d. á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum sem getur valdið tjóni.

Við Breiðafjörð tekur appelsínugul viðvörun einnig gildi klukkan níu. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum, staðbundið yfir 35 meturum á sekúndu, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi, í Dölunum og á Barðaströnd. Líklegt er að á Snæfellsnesi verði einnig talsverð rigning og fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum.

40 metrar í hviðum

Þá verður appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum frá klukkan tíu. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.

Klukkan tólf verður appelsínugul viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra. Búast má við  vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 metra á sekúndu. Vegna hlýnandi veðurs og mikils vindstyrks má búast má við leysingum og auknu afrennsli. 

Á miðhálendinu gildir appelsínugul viðvörun frá klukkan níu og aðstæður hættulegar fyrir ferðamenn.

Á Suðurlandi verður gult ástand frá klukkan tíu. Búast má við snjókomu eða slyddu á fjallvegum og mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. 

Á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi tekur við gul veðurviðvörun síðar í dag.

 Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert