„Ég skal svo sannarlega sýna ykkur að ég get gert þetta“

Ástþór Magnússon fór yfir stöðuna í morgun.
Ástþór Magnússon fór yfir stöðuna í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er náttúrulega vont ef að fjölmiðlarnir eru búnir að kjósa fyrir þjóðina,“ segir Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi að lokinni yfirferð landskjörstjórnar á forsetaframboðum í samtali við mbl.is.

Inntur eftir því hvað hann meini með því segir Ástþór umfjöllun um skoðanakannanir ekki gefa rétta mynd þegar frambjóðendur hafi enn ekki komið saman til kappræða. Hann gefi því ekki mikið fyrir þær skoðanakannanirnar sem þegar hafi verið birtar og þyki fjölmiðlar setja þær fram af fullkomnu ábyrgðarleysi.

„Það væri eðlilegra ef fólk fengi tíma til að átta sig.“

Kom málskotsréttinum á kortið

„Fyrstu kannanir voru nú bara gerðar af frambjóðendunum sjálfum. Ég var t.d. ekki með í spurningum þar. Þetta er allt svolítið skrítið ferli og svolítið áhyggjuefni ef við ætlum að vera með beinna lýðræði,“ segir Ástþór og bendir á að það sé eitt af hans helstu áherslumálum og hafi ætíð verið.

Þá bendir hann sérstaklega á málskotsréttinn sem hann hafi fyrstur vakið athygli á í forsetakosningunum 1996. Þá haf engin annar frambjóðandi haft það að sérstöku stefnumáli, ekki einu sinni Ólafur Ragnar Grímsson sem var kjörin forseti Íslands það árið.

„Ég kom þessu á kortið og þá komu menn fram frá RÚV, úr háskólasamfélaginu, forsætisráðherrann Davíð [Oddsson] og sögðu að ég færi með hreina fjarstæðu, að þetta væri ekki hægt o.s.frv.“ 

Ástþór Magnússon, gefur ekki mikið fyrir skoðanakannanir að svo stöddu.
Ástþór Magnússon, gefur ekki mikið fyrir skoðanakannanir að svo stöddu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill að forsetinn stilli til friðar í Moskvu

Hann segir þá sögu að miklu leyti endurtaka sig í þessum forsetakosningum vegna þess að margir trúi ekki að Ísland geti beitt sér fyrir friðarmálum með þeim hætti sem Ástþór vilji beita sér. 

„Ég vil setja friðarmálin á oddinn og ég vil að forseti Íslands fari til Moskvu og nái friðarsamningum við Rússa,“ segir Ástþór.

„Ég var á ráðstefnu í Norræna húsinu í síðustu viku og þar voru menn að segja „þetta er ekki hægt, hann hefur ekkert umboð, hann getur ekki gert þetta,“ en ég skal svo sannarlega sýna ykkur að ég get gert þetta.“

Getur spurt Katrínu hvað henni gangi til

Aðspurður kveðst Ástþór þó spenntur fyrir baráttunni framundan og að mæta frambjóðendunum í kappræðum. Hann vilji fyrst og fremst beita sér fyrir friðarmálum en honum þyki Ísland hafa gengið í lið með hergagnaiðnaðinum.

„Það hefur verið málflutningur stjórnvalda og málflutningur eins forsetaframbjóðendans, hún hefur meira að segja verið að eyða peningum þjóðarinnar í vopnakaup og núna get ég hitt hana auglitis til auglitis og spurt hana hvað henni gangi til með því,“ segir Ástþór og á þar auðvitað við Katrínu Jakobsdóttur, fyrrum forsætisráðherra.

Landskjörstjórn tilkynnir hverjir verða í forsetaframboði.
Landskjörstjórn tilkynnir hverjir verða í forsetaframboði. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert