Nánast vonlaust að sópa á nagla­dekkja­tíma­bili

Nú er svifryksvertíðin að hefjast, en mars og apríl eru …
Nú er svifryksvertíðin að hefjast, en mars og apríl eru verstu mánuðurinir hvað þetta varðar. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að rykbinding sé hluti af almennri vetrarviðhaldsþjónustu sveitarfélaganna til að draga úr svifryksmengun. Dýrt og seinlegt er að sópa götur, en það getur tekið margar vikur að sópa helstu umferðargötur og er það oft vandkvæðum bundið yfir háveturinn.

Að rykbinda sömu götur tekur hins vegar aðeins hluta úr degi og þykir það fljótleg og ódýr hreinsun, þó endingin sé aðeins einn til þrír dagar. Vegna mikilla veðrabreytinga hér á landi kemur það hins vegar sjaldan að sök. Þá er slit malbiks vegna nagladekkja tugfalt meira en af ónegldum dekkjum.

Þetta kom í máli Þorsteins Jóhannssonar, sérfræðings í teymi loftgæða og losunarheimilda hjá Umhverfisstofnun, á opnum fyrirlestri stofnunarinnar um áhrif nagladekkja á loftgæði og gatnaslit.

Hægt að nota sama mannskap og tæki

Hann segir að mest fáist fyrir peninginn á miðju nagladekkjatímabili með rykbindingu. En þá er saltvatni sprautað á göturnar og þær haldast rakar í allt að tvo til þrjá sólarhringa. Með því límist rykið niður og þyrlast ekki upp þegar bílar keyra um.

Við þessa aðgerð er hægt að nota sama mannskap og tækjabúnað og við hálkuvarnir og snjómokstur en álagstímar í hálkuvörnum og rykbindingu skarast ekki. Samþætta þurfi betur þessar aðgerðir og hafa mörg tæki í gangi þá daga sem svifrykið er hvað mest. Í dag er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem notast við rykbindingu, að sögn Þorsteins, og það dugir skammt.

Mikið ryk getur þyrlast upp á þurrum og köldum dögum.
Mikið ryk getur þyrlast upp á þurrum og köldum dögum. mbl.is/​Hari

30 prósent af efninu breytist í svifryk

Yfirskrift fyrirlestursins var „Þarf ekki bara að sópa oftar“ og til að svara þeirri spurningu segir Þorsteinn vissulega mikilvægt að sópa líka þegar það er hægt, en notast verði við aðrar aðferðir líka. Á miðju nagladekkjatímabili sé nánast vonlaust að sópa, slitið sé svo mikið frá degi til dags. Þá næst ekki að fjarlæga allt ryk með sópun, en fínasta rykið verður eftir og límist við göturnar. Fyrstu dagana eftir sópun getur því jafnvel meira ryk þyrlast upp.

Að sögn Þorsteins er svifryksvertíðin nú að hefjast en mars og apríl eru oftast verstu mánuðirnir hvað svifryk varðar.

Nagladekk hafa mikið að segja við yfirborðsslit á malbiki, en um 30 prósent af því efni sem slitnar upp breytist í svifryk. Restin getur þó brotnað niður síðar meir og einnig orðið að svifryki.

Slit hvað mest hér á byggðu bóli

Þorsteinn segir nýlegar rannsóknir sýna fram á að slit á malbiki vegna nagladekkja sé um 20 til 40 sinnum meira en af ónegldum dekkjum. Lægri talan sé varfærin en þýði þó að ef helmingur bíla sem keyri um göturnar séu á nagladekkjum sjái þeir um 95 prósent af yfirborðssliti malbiks.

Það sé hins vegar fleira sem komi til, eins og hraði ökutækja, frostþíðusveiflur og salt á götum. Allir þessir þættir auki slit og svifryk. Sé hraði ökutækis til að mynda aukinn úr 60 í 85 kílómetra hraða á klukkustund þá eykst slit um 44 prósent. Þorsteinn segir slit á malbiki á höfuðborgarsvæðinu einna mest á byggðu bóli, þá sérstaklega út af miklum frostþíðusveiflum.

Þá kom fram í fyrirlestrinum að áhrifaríkasta leiðin til að draga úr notkun nagladekkja, og þá svifryki, væru efnahagslegir hvatar eins og gjaldtaka. Hana væri hægt að hafa í formi slitgjalds til að ná upp í kostnað vegna viðhalds.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert