Rósóttur fiskur féll ekki í kramið hjá kennaranum

Jón Gunnar segir að sköpunargleði barna fái ekki að njóta …
Jón Gunnar segir að sköpunargleði barna fái ekki að njóta sín í skólakerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Mussila, naut sín aldrei sérstaklega vel í skóla þó hann væri áhugasamur og námsfús þegar hann hóf skólagöngu sína. Hann var lesblindur og gekk því ekki nógu vel að fylgja jafnöldrum sínum í sumum námsgreinum. Eftir því sem námið varð þyngra og kröfurnar jukust fór hann að missa áhugann.

Sérstaklega þegar einkunnablöðin fóru að sýna það með afgerandi hætti að hann var ekki nógu góður í hinum og þessum greinum.

Jón Gunnar átti hins vegar aldrei í vandræðum með stærðfræði. En móðir hans er stærðfræðikennari og náði að vekja hjá honum áhuga með því að setja stærðfræðina upp á skemmtilegan hátt fyrir hann.

„Ég safnaði körfuboltamyndum eins og margir jafnaldrar mínir. Þegar ég lærði margföldun, deilingu, meðaltal og fleira þá nýttum við körfuboltamyndirnar og tölfræði leikmannanna á vellinum, þannig reiknaði ég meðaltal þeirra í leik, hversu mörg stig þeir skoruðu, fráköst, stoðsendingar og svo framvegis. Þarna var mamma mín í raun að tengja kennsluna við mitt áhugasvið og þar með fékk ég meiri löngun til þess að reikna,“ segir Jón Gunnar. 

Persónuleg reynsla varð honum hvatning

Það var þetta með áhugasviðið og hvatann til að læra sem hann áttaði sig svo á síðar þegar hann var kominn til London í leiklistarnám á háskólastigi. Þar fann hann sig og fór loksins að njóta sín í námi.

„Svo fór ég að pæla af hverju það væri og í grunninn var það af því ég var að læra á mínum forsendum. Ég var að læra aftur gríska heimspeki og gríska sagnfræði til að setja upp gríska harmleiki. Um leið og þú áttar þig á því hvers vegna þú ert að læra hlutina þá er hvatinn miklu meiri að ná árangri.“

Mussila, fyrirtækið sem hann er framkvæmdastjóri í, framleiðir stafrænar menntalausnir fyrir börn og er unnið í anda snemmtækrar íhlutunar; með hlustun, hljóðrænni úrvinnslu, vinnsluminni og orðaforða. Margir kannast eflaust við Mussila Music sem kom á markað árið 2017 en Mussila hefur einnig tekið yfir Orðagull sem flestir skólar á Íslandi nota.

Persónuleg reynsla Jóns Gunnars af skólakerfinu varð honum einmitt hvatning til að vilja stækka Mussila enn frekar, en hann og Hilmar Þór Birgisson, framleiðslustjóri fyrirtækisins, mótuðu saman stefnuna og í vikunni kom út Mussila WordPlay. Um er að ræða lestrar- og málörvunarapp fyrir börn frá sex ára aldri. Forritið kom út í 155 löndum, bæði í App Store og Google Play en einnig er hægt að fá fjölskyldu- og skólaaðgang á heimasíðu fyrirtækisins.

Refsað fyrir að leita að nýjum leiðum

„Börn eru fróðleiksfús að eðlisfari og þau læra af forvitni og löngun til að læra. Sköpunarkrafturinn er gríðarlega mikill. Svo fara þau í skólakerfið þegar þau eru sex ára og það er hægt að segja að börn séu skapandi en því miður er skólakerfið það ekki,“ segir Jón Gunnar.

Hann vill meina að kerfið brjóti niður skapandi hugsun hjá börnum. „Það gerðist hjá mér. Ég var mjög spenntur fyrir því að læra og leita eftir nýjum leiðum en mér var refsað fyrir það því skólakerfið snýst um að gefa einkunnir og telja hversu margar villur maður gerir. Ekki hve margar dyr maður hefur opnað. Þegar einkunnablöðin koma til baka og þú færð ekki ágætt eða gott heldur bara lélegt og smám saman byggir maður upp kvíða fyrir því að læra.“

Hann segir kerfið hannað fyrir fjöldann en ekki einstaklinginn og sköpunargleðin fái því ekki alltaf að njóta sín.

„Ég man eftir einu atviki. Ég var í handmennt og gerði púða með mynd af rósóttum fisk, en þá sagði handmenntakennarinn við mig að fiskar væru ekki rósóttir og ég fékk mínus fyrir það. Hvað er verið að kenna börnum þarna, að himininn sé einungis blár? Við eigum að geta séð meira, séð og skynjað miklu fleiri liti.“

Fékk rétt fyrir að hugsa út fyrir kassann

Jón Gunnar man eftir öðru dæmi úr MR þegar hann fór í próf í grískri heimspeki og taldi sig hafa svarað öllum spurningum rétt. „Ég velti fyrir mér hvort ég fengi 8 eða 10 á þessu prófi en svo féll ég. Svo fór ég og skoðaði prófið og ég gerði allt rétt en ég gerði bara ekki eins rétt og kennarinn vildi að ég gerði.“

En hann á líka jákvæðar dæmisögur af skólagöngu sinni. Landafræðikennarinn hans í Hagaskóla kunni til dæmis vel að meta þegar hann hugsaði aðeins út fyrir kassann og nýtti þekkingu sína til að svara prófspurningu á sinn hátt.

„Það var spurt hvar Rotterdam væri, en ég vissi ekki hvar það var. Ég vissi hins vegar að Eimskip sigldi þangað og skrifaði það, því pabbi minn vann hjá Eimskip. Svo skrifaði ég um Eimskip og Eimskipafélag Íslands og hann gaf mér fullt stig fyrir það.“

Þrátt fyrir erfiðleika og áhugaleysi á náminu fór Jón Gunnar í MR eftir að grunnskólagöngunni lauk. Skólinn hentaði honum þó alls ekki og hann féll. Skipti þá yfir í MH sem hann segir hafa tekið aðeins betur utan um hann.

Heimsfaraldur jók eftirspurnina

Jón Gunnar segir þó margt hafa breyst á síðustu tíu til fimmtán árum. Ákveðin bylting sé hafin og Covid-faraldurinn hafi jafnvel flýtt henni töluvert.

„Heimsfaraldur skall á og skólum var lokað. Það hefur flýtt fyrir stafrænu byltingunni og svo hefur verið staldrað við og þetta hugsað upp á nýtt. Hvernig eigi að gera hlutina til framtíðar. Það er rosalega margt að gerast akkúrat núna og það eru spennandi tímar framundan en það þarf að nýta það og ekki horfa á þetta sem tímabundið ástand, heldur horfa til framtíðar.“

Heimsfaraldurinn opnaði jafnframt glugga fyrir frekari þróun Mussila en líkt og áður sagði kom út í vikunni smáforritið Mussila WordPlay. 

Jón Gunnar segir eftirspurnina eftir frekari lausnum frá Mussila hafa aukist strax í upphafi faraldursins, sérstaklega frá skólum sem spurðust fyrir um skólalausn Mussila áður en hún var tilbúin. En foreldrar vildu líka nálgast uppbyggjandi tölvuleiki fyrir börn sín. 

Skólar í 19 löndum nota nú Mussila við kennslu.
Skólar í 19 löndum nota nú Mussila við kennslu. Ljósmynd/Mussila

Heilbrigður skjátími varð enn mikilvægari 

„Þegar farið var að loka skólum og foreldrar voru meira með börnunum sínum þá sáu þeir hvað börnin voru mikið í tækjunum og heilbrigður sjátími varð því enn mikilvægari. Eftirspurnin eftir góðu efni hefur því aukist rosalega. Í mars 2020 þá fjórfaldaðist áskriftarfjöldinn okkar og það hélt bara áfram í gegnum faraldurinn. Á sama tíma og fólk fór að birgja sig upp af vörum þá fór það líka að safna saman góðu efni á iPadana sína,“ segir Jón Gunnar,

„Svo fóru skólar um allan heim að hafa samband við okkur og spyrja út í skólalausnina okkar, jafnvel áður en við vorum komin með hugmynd um að gera hana,“ bætir hann við.

En þróunar- og forritunarteymið bretti einfaldlega upp ermarnar og náði að ljúka við skólaútgáfuna á hálfu ári. Að sögn Jóns Gunnars eru nú skólar í 19 löndum að nota Mussila við tónlistarkennslu. 

„Það þýðir ekki endilega að þetta hafi bara gerst út af faraldrinum, heldur varð þörfin einfaldlega meiri. Eftir þetta hafa bæði skólar og foreldrar áttað sig á þessu og menntatækniheimurinn hefur stækkað alveg gífurlega.“

Mussila hefur hlotið fjölda verðlauna um allan heim. Í næstu viku fara fram Bett verðlaunin í London, en um er að ræða stærstu verðlaunin sem veitt eru í menntatækni. Mussila er þar tilnefnt í þremur flokkum.

Hefur reynst börnum með sérþarfir vel

Jón Gunnar segir stafrænar menntalausnir Mussila hafa reynst börnum með sérþarfir sérstaklega vel. Til að mynda börnum með ADHD og einhverfu. „Þetta snýst um samsetninguna, hvernig við nýtum forritin okkar í að kenna í gegnum leiki þar sem þú byggir upp færni jafnt og þétt. Forritið er gagnvirkt og takkarnir og viðmótið ýtir undir það. Svo er leikurinn er líka rólegur.“

Hann segir Tónstofu Valgerðar nota forritið mjög mikið en þar fá börn með sérþarfir tónlistarkennslu. Orðagull hefur einnig nýst mjög vil við sérkennslu og gerir hann ráð fyrir því að WordPlay komi til með að nýtast í sérkennslu fyrir enskumælandi börn. Í framtíðinni stendur svo til að leikjavæða enn fleiri námsgreinar.

„Þetta að sitja á rassinum og læra og leggja hart að þér, það er eitthvað sem margir heyra. En hvað með að læra til að hafa gaman. Hafa unun af því að læra og nálgast það að þann hátt,“ segir hann.

„Það er líka mikilvægt að taka snobbið af því að hlusta. Við búum í heimi þar sem er mjög auðvelt að nálgast hljóðbækur til að hlusta á. Mér finnst að ef þú ert að hlusta þá ertu að lesa bækur. Þú ert að auka skilning og orðaforða, auka þekkingu og dýpka þig sem manneskju með bókmenntum.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert