Sigurður Ingi: „Mér verður á eins og öðrum“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við alla. En mér verður á eins og öðrum,“ segir í yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar sem hann birti á Facebook rétt í þessu.

Yfirlýsing Sigurðar Inga kemur í kjölfar frétta af því að hann hafi látið niðrandi ummæli falla um Vigdísi Häsler Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, á flokksþingi í tengslum við Búnaðarþing á fimmtudag.

Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“

Hvorki Sigurður Ingi né aðstoðarmenn hans hafa orðið við beiðni mbl.is um viðtal vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert