Vara við rangri skráningu burðarþols

Neytendasamtökin óttast að röng skráning sé algeng.
Neytendasamtökin óttast að röng skráning sé algeng. mbl.is/Hari

Neytendasamtökunum barst á dögunum ábending um ranga skráningu eigin þyngdar hjólhýsis, þar sem í ljós kom að burðarþol hýsisins var fjórðungi minna en skráning sagði til um eða 170 kíló í stað 212 kílóa. 

Neytendasamtökin óttast að röng skráning eigin þyngdar hjólhýsa sé algengari en raun ber vitni og að eigendur hljólhýsa hlaði þau mögulega meiri þunga en sem nemur raunverulegu burðarþoli þeirra, að því er segir í tilkynningu á vef samtakanna. 

Öxullinn illa farinn 

Áðurnefndur félagsmaður samtakanna fór með hjólhýsi sitt á verkstæði og kom þá í ljós að öxullinn var það boginn að hjólbarðarnir voru farnir að slíta hjólskálinni. Var honum tjáð að öxullinn gæti  brotnað undan hjólhýsinu á hverri stundu með alvarlegum afleiðingum,“ segir þar 

Félagsmaðurinn hafi sagt þetta stærra mál en svo að það snerti einungis hann og hans fólk en væri grafalvarlegt ef fjöldi ranglega skráðra hjólhýsa væru á vegum landsins og eigendur vissu jafnvel ekki af því.

„Það er ekki alltaf einfalt að lesa úr og bera saman eigin þyngdir úr samræmingarskírteini eða erlendu skráningarskírteini og skráningarskírteinum til að sannreyna þær. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta óskað eftir því að samtökin kanni þetta fyrir þá með því að senda tölvupóst til Neytendasamtakanna og Samgöngustofu,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar. 

mbl.is