Ekki verið að firra fjármálaráðherra ábyrgð

Bryndís vissi ekki af áformum ríkisstjórnarinnar fyrr en þau voru …
Bryndís vissi ekki af áformum ríkisstjórnarinnar fyrr en þau voru tilkynnt opinberlega í dag. mbl.is/Arnþór

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, telur að með áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja niður bankasýsluna sé ekki verið að firra fjármálaráðherra ábyrgð. 

„Á endanum berum við sem erum í stjórnmálum ábyrgð, hvort sem að það er ráðherra eða við í fjárlaganefnd sem að mæltum með því að halda áfram með þetta ferli. Þess vegna erum við einmitt að kalla eftir þessum upplýsingum og erum að spyrja spurninga,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is en næsta mánudag verður opinn fundur í fjárlaganefnd þar sem að sala ríkisins á Íslandsbanka verður tekin fyrir.

Margt sem hefur stungið

Spurð hvað henni finnst um þessi áform ríkisstjórnarinnar að leggja til við Alþingi að Banka­sýsla rík­is­ins verði lögð niður segir Bryndís:

„Ég hef verið á þeirri skoðun að það er ekki á sama tíma hægt að kalla eftir armslengd frá stjórnmálamönnunum og á sama tíma stjórnmálalegri ábyrgð. En ég viðurkenni að eftir að hafa farið í gegnum þetta ferli núna er ýmislegt við þessa löggjöf og þetta form sem að hefur stungið mig.“

Bryndís hefur áður lýst yfir óánægju með ferlið á sölu bankans.

„Mín ósk væri auðvitað sú að við þyrftum ekki að eiga ríkisbanka og þar af leiðandi þyrftum við ekki að vera með eitthvað sem heitir Bankasýsla sem að sér um að halda utan um eign ríkisins í bönkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert