Hækkun íbúðaverðs stigmagnast

Hækkanir á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu hafa stigmagnast sem af er þessu ári samkvæmt Þjóðskrá Íslands. 

Þar kemur fram að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,1% milli febrúar og mars. Sérbýli hækkaði raunar um 3,9% en eign í fjölbýli um 2,8%. Mun þessi hækkun vera sú mesta í eitt ár. 

Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs er þó svipuð og í febrúar eða 22%. 

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólgan muni vaxa fram á mitt ár og gerir þá ráð fyrir 7% verðbólgu. Sú hækkun verði drifin áfram af hækkun húsnæðisverðs en verðbólga erlendis muni einnig skila sér hingað í einhverjum mæli. Eftir júní mun taka við hæg verðbólguhjöðnun samkvæmt spánni. 

Hagfræðideild bankans gerir ráð fyrir því að „innan tíðar muni hækkanir íbúðaverðs verða hófstilltari, bæði vegna hækkunar stýrivaxta og þar með minni eftirspurnar en einnig vegna aukins framboðs. Það mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert