Hvetja fólk til að láta skoða sig ef það veikist

Fuglaflensan hefur greinst í villtum fuglum hérlendis.
Fuglaflensan hefur greinst í villtum fuglum hérlendis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Enn er talið að fuglaflensan, sem hefur greinst í villtum fuglum hérlendis, berist almennt ekki í fólk. Samt sem áður fylgist embætti landlæknis vel með stöðunni og hefur sóttvarnasviðið verið í sambandi við heilbrigðiskerfið hvað varðar sýnatökur úr fólki ef á þarf að halda.

Málið er þó helst á borði Matvælastofnunar þar sem veiran hefur einungis greinst í fuglum hérlendis.

„Við erum líka að fylgjast með þessu og erum í samstarfi við Matvælastofnun,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um málið.

Hann segir að sem betur fer hafi varla borist fréttir af því að menn hafi smitast af veirunni. Samt sem áður hvetur embættið fólk sem hefur verið í nánum tengslum við fugla að passa sig vel.

„Ef fólk er að veikjast eftir slíkt hvetjum við það til að láta skoða sig. Við erum búin að vera í sambandi við heilbrigðiskerfið um sýnatökur ef á þarf að halda,“ segir Þórólfur.

Einstaka smit hafa komið upp

Í svari á vef Matvælastofnunar um fuglaflensuna og fólk segir að almennt valdi afbrigðið sem nú er mest um í Evrópu og víðar, ekki sýkingum í fólki. 

„Einstaka smit hafa komið upp en þá hjá einstaklingum sem hafa verið í miklu návígi við sjúka fugla án þess að gæta sóttvarna. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því mjög litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum. Dauða fugla er hægt að handleika með því að nota einnota hanska og setja í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fugl upp með pokanum, draga pokann yfir og loka,“ segir á vef Matvælastofnunar.

„Forðast ætti að koma of nálægt veikum lifandi fuglum nema vera með einnota hanska og veiruhelda grímu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert