Skora á lögreglu að skila verkinu óbreyttu

Listaverkið sem stóð við Marshallhúsið hefur vakið mikið umtal. Stolin …
Listaverkið sem stóð við Marshallhúsið hefur vakið mikið umtal. Stolin stytta Ásmundar Sveinssonar er inni í eldflauginni. Ljósmynd/Steinunn Gunnlaugsdóttir

Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir, Dísa, og Steinunn Gunnlaugsdóttir segja verk sitt, Farangursheimild, ekki árás á persónur. Ekki á listamanninn Ásmund Sveinsson, mæðginin Guðríði og Snorra á höggmynd Ásmundar og ekki á Nýlistasafnið eða stjórn þess. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem þær sendu frá sér vegna umfjöllunar og umtals um verk þeirra.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá fjarlægði lögregla verkið Farangursheimild af stalli sínum fyrir utan Nýlistasafnið í Reykjavík fyrir helgi. Hluti af verkinu var bronsstyttan Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson sem stolið var frá Laugarbrekku á Snæfellsnesi í byrjun mánaðarins. Þjófnaðurinn var kærður til lögreglu sem hefur málið nú til meðferðar.

Listakonurnar segja í yfirlýsingu sinni að þær vilji koma þrennu á framfæri; að verk þeirra sé ekki árás á persónur, að þær hafi ekki játað þjófnað á verki Ásmundar og að þær skori á lögreglu að skila Farangursheimild á sinn stað.

Verkið kjarni rasisma í íslensku þjóðfélagi

„Verkið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku kjarnar í okkar huga hugmyndafræði sem ríkti í íslensku

samfélagi þegar styttan var gerð – og ríkir enn í dag. Sú hugmyndafræði heitir rasismi og á sér djúpstæðar, menningarlegar og kerfislægar rætur. Þegar athöfn, orði eða verki er lýst sem rasísku er því ekki sjálfkrafa átt við að þar að baki búi meðvitaður rasískur ásetningur einstaklings. Með verkinu eigum við hér augljóslega ekki við styttuna einbera, heldur einnig og ekki síður það samhengi sem hún var sett upp í, bæði á heimssýningunni og í tilefni landafundaafmælisins.

Sagan um viðburðaríka ævi Guðríðar er þar einfölduð niður í hvítan kvenlíkama sem fæðir hvítt barn á landsvæði þar sem heiðið fólk með lit í húð bjó fyrir – fólk sem síðar var myrt í milljónatali af annarri bylgju landtökumanna,“ sagði í yfirlýsingu listakvennanna.

Í frétt Morgunblaðsins í vikunni kom fram að lögregla leitar nú leiða til að fjarlægja höggmynd Ásmundar úr eldflaug þeirra Steinunnar og Bryndísar. Listakonurnar segja að þeim hafi ekki verið tilkynnt að verk þeirra yrði fjarlægt og fara fram á að lögregla skili því á sinn stað. „Á meðan enn er tekist á um hvað skuli gera við þann menningararf sem kjarnast í styttunni Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, þá teljum við með öllu óskynsamlegt að skilja verkin að. Geimflaugin er að svo stöddu besti staðurinn fyrir þessa afsteypu af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku. Við skorum því á lögregluna að láta ekki verða af aðskilnaðinum, heldur skila verkinu Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum óbreyttu aftur á sinn stað fyrir framan Marshallhúsið.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »