Stígar koma vel undan vetri

Með hækkandi sól fjölgar hjólreiðafólki á stígum landsins.
Með hækkandi sól fjölgar hjólreiðafólki á stígum landsins. mbl.is

Stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu kemur almennt nokkuð vel undan vetri og lítið er um miklar skemmdir á því eins og víða var að sjá eftir veturna tvo þar á undan. Þetta er í nokkurri andstöðu við það sem sást á götum síðustu einn til tvo mánuði, en víða á höfuðborgarsvæðinu voru þær mjög holóttar og slæmar eftir bílaumferð og veðurfar í vetur. Þá virðast verktakar hafa bætt nokkuð ráð sitt í tengslum við frágang í kringum framkvæmdir við stíga.

Erlendur S. Þorsteinsson hefur undanfarin ár verið meðal þeirra duglegustu við að gera athugasemdir við sveitarfélög þegar frágangi er ábótavant í kringum framkvæmdir, viðhald og rekstur hjóla- og göngustíga hér á höfuðborgarsvæðinu. Þá fylgist hann jafnframt vel með því hvernig stígar eru þjónustaðir og hvað megi betur fara þar. Þeir sem eru fastagestir á Facebook-hópum um hjólreiðar eða fylgjast með þessum málum á Twitter sjá reglulega pósta þar sem hann bendir á atriði sem betur megi fara og ráðleggur fólki hvert eigi að snúa sér með ábendingar.

Flestir kannast við að sjá skemmdir á stígum eða að pirra sig á aðstæðum í kringum framkvæmdir. Fæstir nenna þó að standa í að senda inn ábendingar, hvað þá að fylgja eftir málum og því liggur beint við að spyrja hvernig hann nenni þessu. Erlendur hlær við spurningunni, en bætir svo við að honum leiðist að hjóla um þegar eitthvað þvælist fyrir á stígunum sem ekki eigi að vera þar. „Mér leiðist að hjóla í vinnuna og vera annars flokks borgari,“ segir hann. „Ég sá fljótt að ef maður lét ekki vita og kvartaði þá gerðist ekki nokkur skapaður hlutur.“

Þrjú slæm dæmi frá í fyrra

Erlendur segir að á mörgum stöðum hafi frágangur í fyrra verið mjög slæmur. Sem dæmi um mál þar sem betur hefði mátt standa að frágangi nefnir hann þrennt. Í fyrsta lagi sé það Kringlumýrarbraut/Bústaðavegur, en aðgengi um rampinn sem lá upp á Bústaðaveg að norðan var lengi mjög slæmt og hættulegt að þvera götuna. Framkvæmdirnar eiga nú að vera frágengnar, en hann segist engu að síður hafa sent athugasemdir í vikunni með ábendingum um að ýmislegt hafi vantað upp á frágang.

Framkvæmdir hafa staðið yfir við ný undirgöng við Litluhlíð undanfarið. …
Framkvæmdir hafa staðið yfir við ný undirgöng við Litluhlíð undanfarið. Enn er þó ekki búið að opna fyrir umferð hjólandi og gangandi.

Annað dæmi er þegar viðvörunarskilti fyrir akandi umferð var sett á miðjan hjólastíg við Snorrabraut/Borgartún, en það varð nýlega að fjölmiðlamáli og lofaði borgin að breyta því hið snarasta, enda hafði verið um mistök í hönnun að ræða. „Maður andvarpar þegar maður sér svona. Eru menn virkilega ekki með tékklista til að passa upp á svona atvik,“ segir Erlendur.

Þriðja dæmið er í kringum framkvæmdir við Litluhlíð/Bústaðaveg, en þar hafa framkvæmdir við undirgöng undir Litluhlíð staðið yfir í nokkurn tíma. Reykjavíkurborg gaf í desember út að innan stundar yrði allt tilbúið og umferð aftur leyfð í Litluhlíð. Verið væri að leggja lokahönd á verkið. Með fylgdi mynd sem sýndi svæðið tölvuteiknað og fullklárt. Opnað var fyrir umferð um götuna, en fjórum mánuðum síðar var umferð fyrir hjólandi enn langt frá að vera klár.

Jákvætt skref stigið á þessu ári

„Ég vona að hönnuðir og verkfræðingar hafi lært af þessu veseni síðustu ár og þessum dæmum og muni gera betur í framtíðinni,“ segir hann og nefnir sérstaklega nýlegt dæmi þar sem allt hafi verið upp á tíu hjá verktaka sem hóf nýlega framkvæmdir á nýjum Garðheimareit við Álfabakka 6 í Suður-Mjódd. Segir hann að bara það að girðingar hafi verið settar á rétta staði og ekki á miðja hjólastígana sé mjög jákvætt skref og svo að loka ekki reglulega fyrir umferð með einhverskonar hindrunum, meðal annars með gröfum eða öðrum stærri vinnutækjum sem hafi ekki heimild til að vera á stígunum. Nefnir hann að á annarri lóð þar rétt hjá, Álfabakka 2, hafi framkvæmdir lengi verið í gangi og að hann hafi ítrekað sent inn ábendingar vegna þess að verktakar tóku hluta stígsins, lokuðu honum eða voru með vinnutæki á honum.

Segir Erlendur að þarna sé um viðsnúning að ræða frá fyrri árum og hrósar mönnum fyrir að huga að aðgangsmálum fyrir hjólandi og gangandi. Segist hann vera bjartsýnn og segir að besta ráðið til að bæta þessa menningu sé með ábendingum og fræðslu til verktakanna. Bendir hann á að Vegagerðin og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi í byrjun árs 2020 gefið út hönnunarleiðbeiningar þar sem komið er að þessum málum. Meðal annars er gerð krafa um að ekki eigi að vera hindrun innan við 0,5 metra frá stígum. „Ég hef trú á að fleiri þekki nú leiðbeiningarnar og skilji þær,“ segir hann.

Erlendur hrósar verktökum við Álfabakka 6 og segir frágang þeirra …
Erlendur hrósar verktökum við Álfabakka 6 og segir frágang þeirra góðan.

Stígar koma vel undan vetri

Erlendur segir að ástand stíga eftir veturinn sé nokkuð gott í ár. „Stígakerfið kemur betur undan vetri en síðustu vetur. Í fyrravor var mikið verið að kvarta yfir að stígarnir væru ófærir vegna skemmda og við sendum inn margar ábendingar til Reykjavíkurborgar og annarra um slæma stíga Það var til dæmis gert vegna nokkurra staða í Fossvogi,“ rifjar Erlendur upp. „Ég veit hins vegar ekki um neitt slíkt í ár og það kom mér á óvart. Þetta var stuttur og snarpur vetur en ekki langvinnur vetur með stöðugri sveiflutíð.“ Það fari verst með stígana þegar stöðugt sé að frjósa og þiðna. Hann segir hjólastíga hafa verið nokkuð góða fram í febrúar, en þá hafi farið að snjóa mikið og inn í mars. „Öll sveitarfélögin misstu tök á vetrarþjónustunni.“

Göturnar hafa hins vegar verið hræðilegar og mikið er þar um holur og skemmdir. Erlendur segist ekki viss hvað valdi, en þó sé rétt að benda á að almennt sé það ekki yfirborð stíga sem eyðileggist. Það helgist af því að hjól séu mun léttari og álagið þar með minna en hjá bílum. Naglar á hjólum skemmi einnig lítið sem ekkert, en naglar á bílum skemma mikið vegna hraða og þyngdar. Það sé hins vegar helst slæmt undirlagið og frágangur þess sem skemmi stíga þegar þeir verða þúfóttir. Þá segir hann vorsópun almennt hafa byrjað þokkalega.

Að lokum nefnir Erlendur rafmagnshlaupahjól sem hann segir vera nokkurt vandamál á stígum borgarinnar. „Mér finnst þetta frábært innlegg í örflæði, skutli og stuttum vegalengdum, en það er rosalega leiðinlegt að vera að sviga á milli rafskúta sem eru skildar eftir á stígum,“ segir hann. Kallar Erlendur eftir því að leigufyrirtækin útfæri einhvers konar virkni í öppin til að geta varaði við skútum sem séu ekki í lagi eða séu fyrir umferð.

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út í dag. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert