Óvissa um nöfnin á bannlista Rússa

Sendiráð Íslands er í glæsilegu og sögufrægu húsi í miðborg …
Sendiráð Íslands er í glæsilegu og sögufrægu húsi í miðborg Moskvu.

Ekkert hefur enn verið upplýst um það hvaða Íslendingar eru á svokölluðum bannlista rússneskra stjórnvalda, sem rússneska utanríkisráðuneytið greindi frá á föstudag. Þar kom fram að níu Íslendingar væru á listanum, auk 16 Norðmanna, 3 Færeyinga og 3 Grænlendinga. Þó var þess getið að þar væri um að ræða þingmenn og ráðherra, forystumenn í viðskiptum og menntageira, blaðamenn og annað fólk í þjóðmálaumræðu, sem tekið hefði undir málflutning gegn Rússlandi og átt þátt í mótun stefnu sem væri fjandsamleg rússneska ríkinu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er íslenskum stjórnvöldum ókunnugt um það hverjir eru á þessum bannlista, en nokkuð hefur verið bollalagt um það. Embættismaður úr utanríkisráðuneytinu segir að þar komi dágóður fjöldi til greina, einkum þó þeir sem hafi haft sig í frammi um innrásina.

Margir til kallaðir

Þar er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra efst á blaði, en aðrir forystumenn ríkisstjórnarinnar eru einnig nefndir til sögunnar auk dómsmálaráðherra. Þá eru fastafulltrúar Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu taldir líklegir, bæði Hermann Örn Ingólfsson sendiherra og þó ekki síður Garðar Forberg, sem situr í hermálanefndinni og hefur m.a. annast framlag Íslands við hergagnaflutninga til Úkraínu. Eins er talið að Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, kunni að vera á listanum.

Meðal þingmanna er Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, talinn líklegur, auk ýmissa annarra sem látið hafa í sér heyra um nauðsyn vestrænnar samvinnu, svo sem Njáll Trausti Friðbertsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Úr viðskiptalífi og akademíu er dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagður mögulegur, en eins hefur Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, verið nefndur, auk Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðiprófessors. Af fjölmiðlafólki gætu ritstjórar þessa blaðs, Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, verið í sjónmáli rússneskra stjórnvalda, en þau hafa áður gagnrýnt „falsfréttaflutning“ íslenskra fjölmiðla í aðdraganda innrásarinnar.

Í þjóðmálaumræðu hafa ótalmargir verið ómyrkir í máli um innrás Rússa, og einhverjir þeirra kynnu að hafa ratað á listann, svo sem Björn Bjarnason, fv. ráðherra, og Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert