Flest börn þurfa að bíða í 6 til 12 mánuði

Nú liggur fyrir að aðeins um 7% barna komast að …
Nú liggur fyrir að aðeins um 7% barna komast að á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi eða fyrr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins lítill hluti sveitarfélaga á landinu tryggir börnum leikskólapláss þegar þau verða tólf mánaða gömul og eftir að fæðingarorlofi lýkur. Umönnunarbilið svokallaða á milli fæðingarorlofs og leikskóla er því enn langt í flestum tilfellum eða að jafnaði fimm og hálfur mánuður á landinu öllu. Það er þó mislangt eftir því hvar á landinu fólk er búsett.

Nú liggur fyrir að aðeins um 7% barna komast að á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi eða fyrr. 27% komast inn þegar þau eru 12,5 til 18 mánaða en mikill meirihluti barna, eða 66%, kemst að á leikskóla á aldrinum 18,5 til 24 mánaða.

Þetta kemur fram í niðurstöðum úttektar BSRB á leikskólamálum sveitarfélaga sem kynntar voru með útgáfu skýrslu í gær. „Meirihluti barnafjölskyldna á landinu býr við bið eftir öruggu leikskólaplássi sem er sex til tólf mánuðir og það er auðvitað allt of langt,“ sagði Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur hjá BSRB, við kynningu á skýrslunni í gær.

Risastórt jafnréttismál

Ástand þessara mála hefur víðast hvar batnað ef mið er tekið af niðurstöðum sambærilegrar könnunar BSRB sem tók stöðuna á árinu 2017 en Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, benti á við kynninguna í gær að umönnunarbilið er enn óbrúað. Í dag sé staðan ennþá sú að munur er á milli sveitarfélaga hvenær börn komast inn á leikskóla eða allt frá níu mánaða aldri til rúmlega tveggja ára aldurs. Það ríki ójafnræði á milli fjölskyldna eftir því hvar þær búa og það sé risastórt jafnréttismál að leysa úr þessum málum. Konur eru líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar við þessar aðstæður eða lengja fæðingarorlof og benti Sonja á að um þriðjungur kvenna á vinnumarkaði væri í hlutastarfi. Þegar þær eru frá vinnumarkaði til lengri tíma vegna barneigna hefur það áhrif á starfsþróunarmöguleika, atvinnuþátttöku, ævitekjur þeirra og síðar meir á réttindi hjá lífeyrissjóðum.

„Umönnunarbilið er mislangt eftir því hvar á landinu fólk er búsett. Það er að jafnaði um fimm og hálfur mánuður á landinu öllu. Bilið er minnst, um eða innan við mánuður, á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Austurlandi og Vesturlandi. Umönnunarbilið er fjórir mánuðir á Norðurlandi eystra, tæpir fimm á Suðurlandi, sex á höfuðborgarsvæðinu og níu mánuðir á Suðurnesjum,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Biðtíminn hefur minnkað í mörgum sveitarfélögum

Fram kemur að annars staðar á Norðurlöndunum sé engin umræða um umönnunarbil því þar er réttur barna til leikskólavistar eða dagvistar frá tilteknum aldri lögbundinn, sem haldist í hendur við rétt foreldra til fæðingarorlofs. Þar er því tryggð samfella fæðingarorlofs og leikskóla eða dagvistar að loknu fæðingarorlofi.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert