Tré lokaði innkeyrslu í rokinu

Hér má sjá lerkitréð loka leiðinni að húsinu.
Hér má sjá lerkitréð loka leiðinni að húsinu. Ljósmynd/Sigurður Aðalsteinsson

Stórt lerkitré lét undan miklum vindi á Egilsstöðum og lokaði leiðinni að endahúsi við Hamrahlíð.

Anna Hólm Stefánsdóttir, íbúi hússins, segist hafa tekið eftir því eftir veturinn að tréð væri orðið ansi skakkt og lét bæjaryfirvöld vita að það myndi líklega falla til jarðar í næsta óveðri.

Til stóð að bæjarstarfsmenn myndu ganga í málið en það náðist ekki í tæka tíð því tréð lét undan í nótt eða snemma í morgun.

Ljósmynd/Sigurður Aðalsteinsson

Göngustígur er rétt hjá húsinu og segist Anna Hólm ánægð með að enginn hafi slasast. Gul viðvörun var fyrir austan í nótt og kveðst hún lítillega hafa orðið vör við hvassviðrið í nótt. Hún vaknaði þó ekki upp þegar tréð féll til jarðar og lokaði hjá henni innkeyrslunni.

Anna bíður nú eftir að bæjarstarfsmenn fjarlægi tréð svo að hún geti farið á húsbílnum í sauðburð síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert