Bjargaði fjölskyldunni frá gjaldþroti

Kolbrún Sara hefur á stuttum tíma tekið rækilega til í …
Kolbrún Sara hefur á stuttum tíma tekið rækilega til í fjárhagnum og lítur björtum augum til framtíðar. Samsett mynd

Á tveimur árum tókst Kolbrúnu Söru Larsen og fjölskyldu hennar að losna undan erlendu húsnæðisláni og snúa fjárhag sínum úr vörn í sókn. Svokölluð FIRE-hugmyndafræði, sem snýst um að ná fjárhagslegu sjálfstæði, vakti Kolbrúnu Söru til umhugsunar og bjargaði fjölskyldunni í raun frá gjaldþroti.

Kolbrún er annar stjórnenda Facebook-hópsins FIRE á Íslandi – Fjárhagslegt sjálfstæði sem fer ört stækkandi en í honum eru nú 5.500 manns. Gógó Magnúsdóttir stjórnar hópnum ásamt Kolbrúnu og hafa þær gefið út nokkra hlaðvarpsþætti um hugmyndafræðina. Þeir eru aðgengilegir undir heitinu Peningakastið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Kolbrún komst í kynni við hugmyndafræðina í lok árs 2019. Þá töldu hún og maðurinn hennar að þau væru í ágætis málum fjárhagslega. Þegar Kolbrún lagðist yfir bókhaldið kom í ljós að svo var ekki.

„Við vorum nýlega flutt frá Danmörku til Íslands og komum með skuldir heim. Við keyptum okkur allt of stórt húsnæði í Danmörku og náðum ekki að losna við það þar sem ákvörðun um að flytja heim var tekin í skyndi,“ segir Kolbrún.

Með erlent lán á 9,5% vöxtum

Þau hjónin sátu því uppi með danska skuld sem nam rúmum átta milljónum íslenskra króna. Lánið var á 9,5% vöxtum og hækkaði enn örar en ella vegna gengishækkunar. Þá voru þau sömuleiðis búin að kaupa sér stórt hús á Húsavík.

Kolbrún fór á fullt í að kynna sér FIRE-hugmyndafræðina og leita leiða til þess að snúa vörn í sókn. Skammstöfunin FIRE stendur fyrir Financial Independence Retire Early, eða upp á íslenskuna – sem í þessu tilviki er aðeins óþjálli – fjárhagslegt sjálfstæði til þess að setjast snemma í helgan stein.

„Ég var alveg í þessari neysluhegðun og þessu bulli þó að ég hafi ekki átt fyrir því,“ segir Kolbrún Sara og minnist á að á hún verið nýbúin að kaupa ferð fyrir fjölskylduna til Tenerife sem kostaði eina milljón króna þegar hún heyrði af FIRE. Á svipuðum tíma hafi hún keypt sér rándýrt hönnunarljós fyrir sjötíu þúsund krónur, til þess að „svala einhverri skyndiþörf.“

„Mér fannst ég eiga þetta skilið, ég var í fæðingarorlofi og okkur leiddist og vantaði sól í lífið,“ segir Kolbrún Sara.

Vann „óheyrilega mikið“ og hætti að kaupa sér föt

Nýtt ár færði heldur betur með sér nýja tíma fyrir fjölskylduna því í byrjun árs 2020 „gjörbreyttu“ þau lífi sínu í takt við FIRE-hugmyndafræðina. Fjölskyldan seldi húsið á Húsavík og einbeitti sér að því að borga danska lánið hratt upp. Sömuleiðis seldu þau allt sem þau þurftu ekki að nota, þar á meðal umrætt ljós.

Kolbrún, sem er hjúkrunarfræðingur, bætti við sig aukavinnu og „vann óheyrilega mikið“. Hún ákvað jafnframt að kaupa sér ekki föt í eitt ár. Nú eru árin orðin þrjú og segist hún einungis hafa keypt sér sokka og nærföt á tímabilinu.

„Ég átti fullan fataskáp af fötum en í hvert sinn sem ég leit inn í hann fannst mér ég ekki eiga neitt, sem er algjörlega sturlað,“ segir Kolbrún.

Með þessu tókst fjölskyldunni að borga danska lánið upp á þremur árum. „Við unnum hörðum höndum að því að borga þetta lán niður, [þetta voru] blóð sviti og tár,“ segir Kolbrún sem tekur fram að þau hjónin eigi ekki ríka foreldra, hafi ekki fengið neinn arf eða annað slíkt og hafi tekið á sínum málum sjálf án utankomandi aðstoðar.

Fjölskyldan flutti úr 218 fermetra húsi á Húsavík og í …
Fjölskyldan flutti úr 218 fermetra húsi á Húsavík og í 110 fermetra íbúð á Akureyri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úr 218 fermetrum í 110

Frá Húsavík flutti fjölskyldan til Akureyrar og lét sér vel lynda að fara úr 218 fermetra einbýlishúsi í 110 fermetra íbúð sem kostaði aðeins minna en einbýlishúsið. Stóri kosturinn var þó að íbúðinni fylgdi önnur minni íbúð sem þau gátu leigt út.

„Miðað við bókhaldið sem ég setti upp í desember og með áframhaldandi stefnu þá vorum við á einfaldri leið: Þráðbeint í gjaldþrot,“ segir Kolbrún um ferlið. „Þetta var ótrúlegt átak.“

Er þetta þess virði?

„Já, þetta er algjörlega þess virði. Ég fór pínu að keppa við sjálfa mig um að nýta allt sem mest, nota sem minnst, sóa sem minnstu, versla inn eftir matseðlum og elda alltaf heima. Ég varð miklu hamingjusamari vegna þess að ég áttaði mig á því að ég þurfti ekki neitt. Ég hafði nóg. Ég varð miklu nægjusamari, fór að líta meira inn á við, huga að því hverjum ég vildi vera með og einbeita mér að því sem skipti mig og okkur fjölskylduna máli,“ segir Kolbrún.

„Við maðurinn minn eignuðumst miklu betra líf. Þegar maður fór að velta því meira fyrir sér hvert raunverulegt markmið væri og hvert okkar vegferð lægi saman sem hjón varð okkar líf innihaldsríkara.“

Snýst um að lifa á minni pening en fólk þénar

En aftur að hugmyndafræðinni. Kolbrún segir sjálf að flestir geti tileinkað sér hana sama hvar fólk er statt í lífinu, þetta snúist einfaldlega um að leggja það fyrir sem hægt er og lifa ekki um efni fram.

„Það eina sem þarf er að átta sig á því hvaða leiðir henta til þess að ná þessu markmiði: Að vera ekki háð öðrum fjárhagslega,“ segir Kolbrún.

Markmið margra sem tileinka sér FIRE-lífsstíl er að hætta snemma að vinna eða eiga þann kost. Kolbrún bendir þó á að til þess að það sé hægt þurfi fólk að vera búið að kynna sér hversu mikinn pening það þurfi til þess að lifa af.

„Þetta snýst aðallega um að lifa á minna en þú þénar. Alltaf þegar þú þénar eitthvað þá nýtirðu ekki allan peninginn eða tekur yfirdrátt eða einhver lán til þess að framfleyta þér í einhverri neyslu,“ segir Kolbrún um FIRE.

„Þú vilt líka greina á milli þess sem þig langar og þess sem þú þarft. Við t.d. byrjuðum á því að huga að lánunum sem voru að ganga af okkur dauðum. Svo þegar þau voru frá þá gengum við á næsta á næsta. Í millitíðinni breyttust áherslur og ný markmið fæddust.“

Sumir kaupi sér of stórt húsnæði

Spurð hvort það sé þá ekki í boði að taka nein lán, til dæmis húsnæðis- eða námslán, segir Kolbrún að hver og einn þurfi að finna sína leið í þessum efnum. Sumir þurfi auðvitað að taka námslán til þess að framfleyta sér í námi og eðlilegt sé að taka húsnæðislán, það sé þó spurning um hvernig spenna ætti bogann.

„Þarna er mikilvægt að vita hvað er fjárfesting og hvað er skuldbinding. Þegar ég áttaði mig á muninum breyttust áherslurnar. Þó sumir tali um að eigið húsnæði sé fjárfesting þá er það ekki alveg svo, jú þú getur verið í skuldlausu húsi en það mun ekki fleyta þér áfram til þess að vera öruggur fjárhagslega. Því þú selur ekki húsið og býrð í tjaldi til þess að losa pening, að minnsta kosti ekki hér á Íslandi,“ segir Kolbrún og bætir við:

„Sumir kaupa sér of stórt húsnæði og spenna bogann þannig hátt. Það gerir það að verkum að fólk nær ekki að leggja neitt til hliðar heldur vinnur og vinnur til þess að eiga fyrir steypunni sem það býr í.“

Hver eru fyrstu skrefin í átt að FIRE?

„Fyrsta skrefið er að setjast niður og skrá niður hverju maður er að eyða í hverjum mánuði; hvað fer í lán, hvað fer í mat, hvað fer í húsnæði o.s.frv. Þá fær fólk yfirsýn yfir það hvað það er sem skiptir máli og hvað ekki. Þá fer maður að sjá að það er fullt sem maður hefur eytt í án þess að hugsa. Þetta er svo dýrmætur peningur vegna þess að þú þarft að vinna hörðum höndum að því að fá hann inná bankabókina,“ segir Kolbrún.

Til að byrja með mælir Kolbrún því með að fólk sjái hvar það getur skorið niður og lagt fyrir eða notað peninginn til þess að greiða skuldir upp hraðar en ella.

Vilja geta notið tímans saman

En það eru væntanlega einhverjir sem geta ekki tileinkað sér þennan lífsstíl, fólk sem hefur lítið sem ekkert á milli handanna til dæmis?

„Já, ég er fullkomlega meðvituð um það. Það er allt annað mál ef fólk til dæmis getur ekki unnið. Það er erfiðara að eiga við slíkar aðstæður.“

„Okkar markmið er að lifa öðruvísi í dag svo við getum lifað öðruvísi eftir nokkur ár. Við ætlum að geta hjálpað börnunum okkar fjárhagslega og geta notið tímans með þeim, vinum okkar, fjölskyldu og hvort öðru,“ segir Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert