Einn fluttur á sjúkrahús eftir umferðarslys

Slysið varð undir Eyjafjöllum.
Slysið varð undir Eyjafjöllum. mbl.is/Sigurður Bogi

Flytja þarf ökumann fólksbifreiðar sem lenti út af Þjóðvegi eitt undir Eyjafjöllum á sjúkrahús. Landhelgisgæslan var kölluð út en gat ekki sinnt útkallinu þar sem enginn flugstjóri var á vaktinni. 

„Nú er verið að flytja ökumann fólksbifreiðar sem lenti út af þjóðvegi 1 skammt vestan Efra Bakkakots undir Eyjafjöllum. Slysið var tilkynnt kl. 11:08 í morgun og viðbragðsaðilar þá strax kallaðir til, annarsvegar frá Vík og hins vegar úr vestri,“ segir í færslu Lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook.

„Okkur þykir miður að við gátum ekki annast þetta útkall vegna þessa umferðarslyss sem varð,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

„Vegna veikinda var enginn flugstjóri á vakt og ekki reyndist unnt að kalla til flugstjóra á frívakt til þess að manna útkallshæfa áhöfn. Því gat þyrlusveitin ekki sinnt þessu útkalli, því miður.“

Vegurinn lokaður en hjáleið í boði

Að sögn lögreglunnar eru rannsóknarlögreglumenn og rannsóknarnefnd samgönguslysa nú við vinnu á vettvangi.

„Vegurinn er lokaður en hjáleið um Raufarfellsveg og búast má við að vettvangsvinna taki einhvern tíma.“

Uppfært kl. 14.24: 

Búið er að opna fyrir umferð um þjóðveg 1 undir Eyjafjöllum. Búast má við einhverjum töfum þegar ökutækið verður híft á pall, að sögn lögreglunnar á Suðurlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert