Lilja fundaði með HBO og Amazon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir segir að verið sé að taka ákvarðanir …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir segir að verið sé að taka ákvarðanir um stór verkefni um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beinn efnahagslegur ávinningur, af því að hækka endurgreiðslu til kvikmyndaframleiðanda upp í 35 prósent, er verulegur að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur ferðamála-, menningar- og viðskiptamálaráðherra.

Ríkið væri þannig ekki að greiða með iðnaðinum, enda komi inn beinar skatttekjur sem séu umfram endurgreiðsluna. „Við erum ekki að borga með þessu og ætlum okkur aldrei að fara þangað.“

Deildarskipting verkefna

Frumvarpsdrögin, sem nú eru í samráðsgátt stjórnvalda, fela í sér deildarskiptingu á kvikmyndaverkefnum. Þannig verður enn miðað við 25 prósenta endurgreiðslu til smærri verkefna og verkefna til skamms tíma.

Aftur á móti verður endurgreiðsluhlutfallið hækkað til stærri verkefna sem eru hér á landi í þrjátíu daga eða lengur. 

„Markmiðið er að einblína á gæði og tryggja að atvinna í þessum geira verði stöðugri.“ Með þessari breytingu eigi sér stað bylting í kvikmyndaiðnaði hér á landi. 

Hvert verkefni margir milljarðar

„Við fáum inn miklu stærri verkefni, hvert verkefni eru margir milljarðar. Við fáum þetta beint inn í formi skatta enda er greiddur virðisauki af öllu.“ Hún bendir á að sérþekking fólks hér á landi komi til með að nýtast, þá skapist einnig þörf á markaði fyrir nýtt kvikmyndaver. 

Önnur tækifæri sem hún nefnir eru tökur út á landi og nýting hótela á tímum þegar eftirspurn er minni. Einnig feli kvikmyndaiðnaðurinn í sér mikla landkynningu en Lilja bendir á að meirihluti ferðamanna sem hingað komi hafi heillast af landinu eftir að hafa séð það í kvikmynd eða sjónvarpsþætti. 

Áhugi á Íslandi kalli á flýtingu

Frumvarpsdrögin eru í samræmi við þau fyrirheit sem komu fram í stjórnarsáttmálanum. Lilja hafði ætlað að mæla fyrir frumvarpi af þessu tagi á þinginu næsta haust en ákvað að flýta ferlinu þannig að mögulegt verði að afgreiða frumvarpið á vorþinginu. 

„Það er bara svo rosalegur áhugi á að koma með verkefni til landsins, kvikmyndaiðnaðurinn er að blómstra en hann sprakk út í Covid með frábæru samstarfi við sóttvarnayfirvöld.“ 

Lítt hrifin af samkeppni milli skattaumhverfa

Lilja átti nýverið fund með góðkunnum framleiðendum á borð við HBO og Amazon sem skipulagður var af Íslandsstofu. Þeir framleiðendur séu nú að skoða mögulega tökustaði um allt land.

„Það er verið að taka ákvarðanir núna um stór og spennandi verkefni, sem ég get auðvitað ekki sagt frá að svo stöddu.“

Hún kveðst almennt ekki hrifin af því þegar ríkissjóður er orðinn þátttakandi í samkeppni milli skattaumhverfa, aftur á móti þurfi Ísland að vera samkeppnishæft til þess að laða til sín stærri verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert