„Skiptir ekki máli hvað skólinn er stór“

Höfuðið á Auðunni Inga má sjá við hlið Viðara Hrafns …
Höfuðið á Auðunni Inga má sjá við hlið Viðara Hrafns og þar við hlið eru Þórunn og Hanna Dóra sem heldur á bikarnum. Liðið er klætt í hvítu vestin. Ljósmynd/Skólahreysti

„Þetta er alveg ólýsanleg tilfinning, ótrúlega gaman að vinna skólahreysti og sýnir að það skiptir ekki máli hvað skólinn er stór, heldur er það liðsheildin,“ segir Hanna Dóra Höskuldsdóttir í samtali við mbl.is en hún er í sigurliði Flóaskóla í Skólahreysti. 

Úrslitin fóru fram í gærkvöldi en Flóaskóli sigraði þar með 61,5 stig. Í öðru sæti varð Hraun­valla­skóli í þriðja sæti varð Holta­skóli.

Hanna Dóra keppti í hraðaþraut ásamt Viðari Hrafni Victorssyni. Auðunn Ingi Davíðsson  keppti í upphífingum og dýfum og Þórunn Ólafsdóttir í armbeygjum og hreystigreipi.

„Ég er sjúklega stolt af þessu liði. Þau stóðu sig öll svo vel,“ segir Hanna Dóra og bætir við að hún vilji þakka Örvari, þjálfara liðsins, „fyrir að vera besti þjálfari á landinu“.

Þá segir hún stuðningslið skólans, sem var í stúkunni, hafa sýnt liðinu gríðarlegan stuðning. 

Lið Flóaskóla ásamt stuðningsmönnum.
Lið Flóaskóla ásamt stuðningsmönnum. Ljósmynd/Skólahreysti

Meira spennandi að hlaupa

Hanna Dóra hefur keppt í Skólahreysti fyrir Flóaskóla þrisvar sinnum og alltaf komist í úrslit en loksins hafðist sigurinn áður en hún fer í Framhaldsskóla Suðurlands í haust.

Þegar hún var í 7. bekk hafði hún augastað á að keppa í armbeygjum og hreystigreipi, „en það breyttist snöggt, mér fannst miklu meira spennandi að hlaupa, meiri kraftur,“ segir Hanna Dóra en hún keppti öll árin í hraðaþrautinni. 

Frá 6. bekk hefur hún æft frjálsar íþróttir hjá Selfossi en fyrir það æfði hún fimleika.

Hanna Dóra segir að hún leggi mesta áherslu á grindahlaup, langstökk og hástökk og að hennar helstu markmið í íþróttinni séu að bæta árangurinn sinn. 

Íþróttaáhugi hjá fjölskyldunni

Systir Hönnu Dóru er Helga Margrét Höskuldsdóttir, íþróttafréttakona á Rúv, og var hún meðal annars kynnir á keppninnar.

Innt að því hvort mikil áhersla sé lögð á íþróttir í fjölskyldunni segir Hanna Dóra að fjölskyldan hafi mikinn áhuga á íþróttum.

„Við höfum alltaf verið íþróttafjölskylda, æfðum eða æfum öll systkinin íþróttir og finnst gaman að fylgjast með íþróttum,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert