Stóra mamma er orðin 130 kíló

Stærsta styrjan í eldisstöðinni á Ólafsfirði er orðin 130 kíló …
Stærsta styrjan í eldisstöðinni á Ólafsfirði er orðin 130 kíló að þyngd og skilar hrognum í haust. Ljósmynd/Laken Louise Hives

Framleiðsla á íslenskum styrjuhrognum hefst í haust eða byrjun vetrar þegar byrjað verður að strjúka hrogn úr styrjunum sem Hið Norðlenzka Styrjufelag ehf. á Ólafsfirði hefur tekið við eldi á. Hrognin eru eftirsótt vara á heimsmarkaði og verðmætasta afurð fiska sem til er. Á Ólafsfirði verður hrygnunum ekki slátrað heldur munu þær gefa af sér afurðir á hverju ári í mörg ár eða áratugi.

Úr sjó í ferskt vatn

Stofninn sem til er hér á landi flutti Stolt Sea Farm inn frá systurfélagi sínu í Bandaríkjunum og hefur alið síðan í eldisstöð sinni í Höfnum. Hið Norðlenzka Styrjufjelag keypti fiskana og voru þeir fluttir norður í sérsmíðuðum kerum á flutningabílum í fimm ferðum í aprílmánuði. Eldið fer fram í gömlu saltfiskhúsi við höfnina á Ólafsfirði. Þar verða afurðirnar einnig unnar auk þess sem komið verður upp seiðaeldi. Eyþór Eyjólfsson, stjórnarformaður félagsins, segir að flutningurinn hafi gengið vel og nú séu styrjurnar að jafna sig.

Þær voru aldar í sjó í Höfnun en á Ólafsfirði eru þær aldar í ferskvatni. Það er í samræmi við skilyrði náttúrunnar því styrjur vaxa upp í hafinu en ganga í árnar til að hrygna.

Strokið en ekki slátrað

Hvítstyrja er forsögulegur fiskur og með elstu fisktegundum í heimi. Þær ná háum aldri, heimildir eru um að styrja hafi orðið 152 ára.

138 styrjur eru í stofninum sem nú er í eldi á Ólafsfirði. Meðalþyngd þeirra er tæplega 60 kíló, þegar litið er á allan stofninn, hrygnur og hænga. Hængarnir eru minni en hrygnurnar. Stærsta hrygnan er 130 kíló og er kölluð Stóra mamma. Meðallengd fiskanna er um tveir metrar en þeir geta orðið þrefalt lengri og vegið 800 kíló.

Styrjufjelagið hefur fengið leyfi Alfred Wegener-stofnunarinnar í Bremerhaven til að nota einkaleyfi hennar til að strjúka hrogn úr fiskunum og vinna kavíar úr þeim. Það þýðir að engum fiski er slátrað vegna framleiðslunnar og hrygnurnar nýttar eins lengi og þær lifa eðlilegu lífi. Eyþór bendir á að styrja sé í útrýmingarhættu vegna ofveiði og ekki sé hægt að selja hrogn nema með vottun um að þau komi úr sjálfbæru eldi. Sömuleiðis hafi það þýðingu að styrjurnar séu aldar í kerum á landi því það tryggi mengunarvarnir. Þá eru hrogn sem strokin eru úr lifandi styrjum betri vara til vinnslu en hrogn sem skorin eru úr styrjum. Þessi staða veitir afurðum Styrjufjelagsins aðgang að bestu mörkuðum.

Ekki liggur fyrir hversu mikið magn fæst úr hrygnunum í haust. Þetta er í fyrsta skipti sem þær eru stroknar. Eins á eftir að kyngreina helming fiskanna og því ekki vitað með fullri vissu hversu margar hrygnurnar eru. Ákveðið hefur verið að hefja framleiðslu á seiðum, bæði til að stækka stofninn og flytja úr landi, og einhverjar hrygnur verða valdar til að sinna því hlutverki. Þau hrogn nýtast ekki í kavíar og seiðin byrja ekki að gefa afurðir fyrr en eftir sjö eða átta ár.

Eftirsótt og verðmæt afurð

Heildarframleiðsla á kavíar í heiminum er um 380 tonn, þar af rúm 160 tonn í Evrópu. Framleiðslan á Ólafsfirði verður aðeins brot af því, eða einhver hundruð kíló. Eigi að síður verða verðmætin veruleg því verðið er gott.

Starfsmenn og eigendur Styrjufjelagsins eru í miklum önnum við að standsetja aðstöðuna á Ólafsfirði og annast styrjurnar. Eyþór segir að ekki sé búið að ákveða hvernig staðið verður að sölu afurðanna. Hann segir þó að borist hafi tilboð um að kaupa alla framleiðsluna, bæði frá Englandi og Bandaríkjunum. Hins vegar hafi félagið áhuga á að selja hluta framleiðslunnar í neytendapakkningum, ekki síst á heimavelli á Tröllaskaga en þangað kemur sem kunnugt er fjöldi ferðamanna.

Greinina má finna í heild sinni í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »