Tvö ár fyrir innflutning kókaíns og peningaþvætti

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur dæmt Ingþór Halldórsson í tveggja ára fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og peningaþvætti. Einnig var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins upp á rúmar 880 þúsund krónur.

Ingþór var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot árið 2017 fyrir að hafa staðið að innflutningi ásamt öðrum manni á rúmum tveimur kílóum af kókaíni. Hann var einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa „tekið við, nýtt, umbreytt og/eða aflað sér ávinnings af refsiverðum brotum allt að fjárhæð 7.480.145 krónur,“ að því er segir í dóminum.  

Ingþór var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og fyrir peningaþvætti að fjárhæð 1.178.565 krónur en sýknaður af öðrum sakargiftum. Hinn maðurinn sem var ákærður hlaut 20 mánaða skilorðsbundinn dóm.

Tvö og hálft ár frá upphafi rannsóknar til ákæru

Í dómi Landsréttar kemur fram að vegna alvarleika brota Ingþórs hafi ekki komið til greina að skilorðsbinda refsinguna og var dómurinn yfir honum því þyngdur. En drátturinn á málinu hafði aftur á móti áhrif á ákvörðun refsingarinnar.

Fram kemur að samkvæmt gögnum málsins og yfirliti ákæruvalds vann lögregla að rannsókninni frá 19. ágúst 2017 í kjölfar handtöku ákærða og fram í september sama ár. Fjórtán mánuðum síðar, eða 8. nóvember 2018, var málið sent héraðssaksóknara til meðferðar. Ákæra var síðan ekki gefin út fyrr en 20. febrúar 2020. Þannig liðu tvö og hálft ár frá upphafi rannsóknar til ákæru.

Þess má geta að fram kemur í dóminum að þrjú og hálft ár hafi liðið frá upphafi rannsóknar til ákæru en miðað við upplýsingar þar um að rannsóknin hafi hafist í ágúst 2017 og lokið með ákæru í febrúar 2020 er um tvö og hálft ár að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert