22 gráður á morgun ekki loforð um gott sumar

Sól slær silfri á voga, sagði skáldið en sólin kætir …
Sól slær silfri á voga, sagði skáldið en sólin kætir borgarbúa á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur segir hitan stefna í að kljúfa tuttugu stiga múrinn á morgun á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi en hvetur fólk til að njóta líðandi stundar þar sem þetta veður er ekkert loforð um áframhaldandi hita í sumar.

Aðspurð segir Birta Líf að góða veðrið sem er búið að kæta borgarbúa á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur vera engan fyrirboða um gott veður í sumar. „Mig langar rosa mikið að segja já en því miður er þetta enginn fyrirboði um sumarið. Þetta er bara blíðan núna og um að gera að njóta þess.“

Tuttugu gráður á morgun

Segist Birta Líf ekki vera með nægilega áreiðanlegar upplýsingar til að spá fyrir um allt sumarið en bendir á að veðrið um helgina eigi að vera frábært og að á morgun eigi að hlýna enn frekar. 

„Við skulum bara lifa í núinu,“ segir Birta Líf og bendir á að mögulega fari hitinn upp í tuttugu gráður í dag en að það gerist örugglega á morgun. „Ég á alveg von á því að það fari upp í 22 stig á Suðurlandi á morgun,“ segir Birta Líf. 

Hvetur hún fólk til að njóta helgarinnar þar sem að samkvæmt spá Veðurstofunnar eigi að vera skúrir í næstu viku og kólna aðeins. Bætir Birta Líf þó við að þessi spá sé lögð fram með fyrirvara og enn geti allt breyst.

mbl.is