Bárurnar synda yfir Ermarsund

Bárurnar í miklu stuði á síðasta ári.
Bárurnar í miklu stuði á síðasta ári. Ljósmynd/Aðsend

Sjósundshópurinn Bárurnar er lentur í Dover á Englandi. Dagana 3. til 10. júní munu þær synda yfir Ermarsundið, frá Englandi til Frakklands. 

„Við höfum sjö daga sundglugga sem frá 3. til 10. júní og það fer bara eftir veðri og vindum hvenær verður lagt af stað,“ segir Elsa Valsdóttir. Hún segir að hópurinn stefni á að klára sundið á um það bil 19 tímum. Þetta er fyrsta skiptið sem hópurinn syndir yfir Ermarsund.  

Undirbúningurinn langur og strangur

Elsa segir að undirbúningurinn fyrir Ermarsund hafi gengið vel. „Við erum búin að vera að æfa fyrir þetta meira eða minna síðastliðin tvö ár, og þá sérstaklega síðan í fyrrasumar. Við syntum í fyrra í raun og veru öll svona lengri sund sem voru í boði heima, Urriðavatnið, Sæunnarsundið og út í Víðey,“ segir hún og bætir við að undirbúningurinn sé búinn að vera langur og strangur.  

Bárurnar eru búnar að skipuleggja sundið vel. Elsa segir að hver sundkona syndi í klukkutíma og komi svo um borð í bátinn sem fylgir okkur og þá fari næsta út í. Svona syndum við koll af kolli þangað til að röðin er búin og þá fer fyrsta út í aftur.“

Styðja stómasamtökin

Bárurnar hafa ákveðið að styðja við Stómasamtök Íslands með þrekraun sinni, en Elsa segir að það hafi verið erfitt val enda margur málsstaðurinn sem þarf á stuðningi að halda. En stuðningur við Stómasamtök Íslands skipti þær miklu máli, enda er ein Báranna stómaþegi, þ.e. Sigríður Lárusdóttir, og því standa málefni stómaþega Bárunum sérstaklega nærri.

Ásamt Elsu Valsdóttir samanstendur sjósundhópurinn Bárurnar af eftirfarandi: Sigríði Lárusdóttur, Hörpu Leifsdóttur, Jórunni Atladóttur, Guðmundu Elíasdóttur og Bjarnþóru Egilsdóttur.

mbl.is