Davíð Rúnar Bjarnason byrjaði að hlaupa klukkan 14:00 á föstudaginn en kom í mark í gærkvöldi sem eini keppandinn sem lauk 163 kílómetra hlaupi í Hengill Ultra hlaupinu í Hveragerði sem fór fram um helgina. Davíð hljóp í heildina 168,5 kílómetra og kom í mark á tímanum 31 klukkustund og sautján mínútur.
Davíð var því fyrsti keppandinn til byrja að hlaupa og síðasti keppandinn til að koma í mark í Hengill Ultra hlaupinu. Þrátt fyrir þetta segir Davíð í samtali við mbl.is í dag að honum líði mjög vel. „Ég er merkilega góður, ég er með einhver svona smáræði hér og þar eins og nuddsár en annars bara þokkalega góður,“ segir Davíð og segir þessi sár hafa stoppað sig hvað mest undir lokin.
Segir Davíð að honum hafi liðið vel mestmegnis hlaupsins „Ég var bara geggjaður allan tíman, ég var eins og nýr eiginlega allt hlaupið þangað til ég var hálfnaður með síðasta hringinn. Það gekk allt eftir plani þangað til en þá sagði maginn minn bara stopp í sex tíma og ég gat ekki tekið inn neina næringu og það bitnaði á orkunni,“ segir Davíð.
Spurður um hvað hjálpaði honum að halda sér gangandi í gegnum allt hlaupið segir Davíð það hafa hjálpað mjög mikið að vera búinn að sjá fyrir sér hlaupið í heilt ár áður en að hann keppti um helgina.
„Ég náði ekki að klára þetta hlaup í fyrra og það var margt sem spilaði inn í þar en ég er búin að sofa með keppnisnúmerið frá því í fyrra í náttborðinu í heilt ár. Ég er búinn að sjá fyrir mér þetta augnablik að koma í mark í heilt ár. Sonur minn hljóp með mér síðustu metrana og við settum keppnisnúmerið frá því í fyrra á hann svo hann kom með mér í mark á gamla númerinu mínu,“ segir Davíð og bæti við að þetta hafi verið mjög sæt stund.
Segist hann aldrei hafa verið í vafa um það í hlaupinu um hvort hann myndi klára eða ekki. Þetta er lengsta hlaup sem Davíð hefur hlaupið en hann hefur fyrir þetta hlaupið 112 kílómetra tvisvar.
Segir hann ekki við skilið hér heldur ætlar sér að hlaupa miklu lengra í framtíðinni. „Ég er rólegur núna í tíu daga og ætla ekki að gera neitt og slaka á en þetta verður ekki mitt lengsta hlaup, bara klárlega ekki,“ segir Davíð en vill alls ekki gefa upp hvaða lengd hann er að stefna á.
Davíð er núna í hópi sjö á landinu sem hafa klárað þetta hlaup og að hans mati hefði verið gaman að hlaupa þetta með einhverjum í gær í staðinn fyrir að hlaupa einn. „Ég var náttúrulega einn með sjálfum mér í 31 tíma sem er ógeðslegt. Það er enginn til að keppast við og enginn að hvetja mann áfram,“ segir Davíð.
Spurður um leyndarmálið að svona velgengni í hlaupum segir Davíð skipta mestu máli að vera með sterkan haus og að maður geri ekki neitt án hans. „Ég er bara einn af þessum ofvirku strákum og þetta eru eiginlega einu skiptin sem ég er rólegur það er þegar ég er þarna,“ segir Davíð.
Alls voru sjö skráðir í hlaupið en aðeins tveir sem mættu í það. Var Davíð sá eini sem kláraði hlaupið. Að sögn Davíðs segir þessi mæting allt sem segja þarf um áskorunina. Davíð reiknar með að ná fyrst að hvíla sig almennilega í kvöld eftir hlaupið enda var hausinn og líkaminn í skringilegu standi eftir hlaup gærdagsins.