Sendi kynferðislegt myndefni af fyrrverandi

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi karlmann í síðustu viku vegna sendinga kynferðislegs myndefnis af fyrrverandi kærustu sinni en sýknaði hann þó að hluta af þeim sökum. Var maðurinn dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna sendinga myndefnisins og til þess að greiða samtals um tvær og hálfa milljón í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda o.fl. Sömuleiðis var honum gert að greiða þolandanum 500.000 krónur í miskabætur.

Þá sýknaði héraðsdómur manninn af ákæru vegna meints brots í nánu sambandi, meintrar nauðgunar og meintra brota gegn nálgunarbanni.

Maðurinn var m.a. ákærður fyrir að hafa sent öðrum karlmanni smáskilaboð og tölvupóst með myndbandi sem sýndi karlmann hafa samfarir við þolandann. Einnig var honum gefið að sök að hafa árið 2017 sent fyrrverandi eiginmanni þolandans smáskilaboð með kynferðislegum myndum af henni og myndband sem sýndi hana í kynferðislegum athöfnum. Sama ár er honum gefið að sök að hafa sent konunni ljósmyndir af henni veita honum munnmök og að hafa sent tveimur öðrum aðilum smáskilaboð með myndum og myndböndum sem sýndu hana í kynferðislegum athöfnum. 

Fékk nálgunarbann og leitaði til Bjarkarhlíðar

Maðurinn var sömuleiðis ákærður fyrir að hafa brotið nálgunarbann sem konan hafði fengið gegn honum eftir að hún hafði sakað hann um að hafa ráðist inn á heimili hennar. Krafðist ákæruvaldið þess að konan fengi frá manninum 3,7 milljónir í miskabætur og gerði hún sömuleiðis einkaréttarkröfu upp á þrjár milljónir. Við því varð dómurinn sannarlega ekki, eins og áður hefur verið reifað. 

Árið 2017 var lögreglan nokkrum sinnum kölluð á heimili brotaþola vegna meints heimilisofbeldis gegn henni. Hún leitaði til Bjarkahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis í kjölfarið. Sagði hún þá að maðurinn hefði sent „viðkvæmt myndefni“ til ættingja hennar og vina rafrænt sem sýndi hana í kynferðislegum athöfnum. Sagði konan að hún hefði að mestu ekki vitað um tilvist myndefnisins en að fyrrverandi kærastinn hefði hótað henni að dreifa slíku efni til óviðkomandi. 

Tveimur árum síðar, miðvikudaginn 29. maí, barst lögreglu tilkynning um meinta nauðgun á heimili konunnar. Eins og greint er frá fyrr í þessari frétt var maðurinn sýknaður af þeim sökum en konan sagði að maðurinn hefði fyrr um daginn komið inn um svaladyr íbúðar hennar, ráðist á hana, rifið hana úr fötunum og nauðgað henni. Hann hafi ekki farið af staðnum fyrr en hún hringdi í kærastann sinn. 

mbl.is