Send með einkavél til að troða upp á kvöldvökunni

Bríet komst á svið og stóð sig eins og rokkstjarna …
Bríet komst á svið og stóð sig eins og rokkstjarna að sögn mótstjóra. Ljósmynd/TM-Mótið

Lokadagur TM-Mótsins er í Vestmannaeyjum í dag en ungar knattspyrnukonur hafa leikið þar listir sínar í frábæru veðri síðustu daga. Úrslitaleikurinn fer fram klukkan fimm á eftir en landsliðin mættu pressuliðunum í gærkvöldi. Mótstjórinn segir augljóst að margar framtíðar landsliðskonur hafi verið á mótinu.

„Það er bara búið að vera geggjað að horfa á stelpurnar og sjá framfarirnar alltaf ár frá ári og hvað kvennafótboltinn er að taka miklum breytingum á Íslandi,“ segir Sigríður Inga Kristmannsdóttir, mótstjóri. 

„Stelpurnar eru alveg að fíla sig í botn á fótboltavellinum og svo er líka búið að vera mjög gaman á dagskrárliðum utan keppnisleikja.“

Minni höfuðverkur að skipuleggja mótið

Eins og svo margir stórviðburðir sem fara fram í ár var skipulagning TM-Mótsins mun auðveldari miðað við árið 2021 þegar samkomutakmarkanir voru við lýði.

Að sögn Sigríðar Ingu var afar ánægjulegt að geta loks haldið mótið án þess að þurfa að takmarka aðkomu foreldra og hólfaskipta leikmönnum. „Þetta var bara þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að standa í því.“

Þá segir Sigríður mótið hafa gengið þvílíkt vel fyrir sig en ekki mátti þó tæpara standa með kvöldvökuna sem var haldin í gær. 

Kvöldvakan tæp

Tónlistarkonan Bríet tróð þar upp en litlu mátti muna að hún kæmist ekki sökum ítrekaðra tafa á flugi hennar til Íslands en hún var stödd erlendis. Var lengi útlit fyrir að hún kæmist ekki.

Eftir að hafa loks komist til landsins í gær var hún send með einkaflugvél frá Reykjavíkurflugvelli til Vestmannaeyja og var hún mætt á slaginu átta, á sama tíma og kvöldvakan átti að byrja. „Henni var brunað af flugvellinum og beint upp á svið.“ 

„Hún var bara eins og rokkstjarna,“ segir Sigríður Inga þegar hún lýsir frammistöðu Bríetar á sviðinu. Segir hún ungu knattspyrnukonurnar hafa verið með stjörnur í augunum þegar þær fylgdust með flutningi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert