Banna nikótín í starfsemi fyrir börn og ungmenni

Óheimilt verður að auglýsa nikótínvörur.
Óheimilt verður að auglýsa nikótínvörur. mbl.is/​Hari

Alþingi hefur samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum nr. 87/2018, sem felur í sér að nikótínvörur eru felldar undir lög um rafrettur, þannig að í meginatriðum gildi þar með sömu reglur um þennan varning.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að meginmarkmið þessa sé að tryggja gæði og öryggi nikótínvara og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn kaupi hvorki né noti nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Nikótínvara telst sú vara sem inniheldur nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki og varan inniheldur að öðru leyti ekki önnur efni sem unnin eru úr tóbaki. Dæmi um nikótínvöru eru nikótínpúðar.

Ekki megi höfða til ungmenna

Með lögunum er innleitt 18 ára aldurstakmark við kaup og sölu á nikótínvörum eins og gildir um rafrettur og áfyllingar á þær. Þá er gert óheimilt að auglýsa nikótínvörur. Á sölustöðum mega þær ekki vera sýnilegar og óheimilt að merkja umbúðir með texta eða myndmáli sem höfðar til barna og ungmenna.

Óheimilt verður að selja nikótínvörur í grunn- og framhaldsskólum og á öðrum stöðum sem ætlaðir eru til félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna. Eftirliti með öryggi nikótínvara og merkingum og eftirlit með auglýsingabanni verður hagað á sama hátt og nú gildir um rafrettur og áfyllingar á þær.

Bann er lagt við notkun nikótínvara þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi á meðan starfsemi fer fram fyrir börn yngri en 18 ára.

mbl.is