Snúin efnahagsleg staða

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir verðbólguna og vaxtahækkanirnar hafa áhrif á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir verðbólguna og vaxtahækkanirnar hafa áhrif á þjóðina í heild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hækkandi verðbólga og hækkun stýrivaxta hefur áhrif á þjóðina í heild og ekki má gera lítið úr því, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Aftur er verið að hækka vexti og þetta er snúin efnahagsleg staða á sama tíma og okkar efnahagslegu aðgerðir í kjölfar Covid hafa borið ríkan árangur.“

Katrín bendir á að Ísland sé í hópi fárra þjóða þar sem kaupmáttur hefur aukist í gegnum heimsfaraldurinn. 

„Við sjáum ráðstöfunartekjur allra hópa vaxa. Skattbyrði allra hópa, nema tekjuhæstu, lækka vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Við stöndum því vel en þetta eru eðlilega víðsjárverðir timar.“

Grípa til ýmissa ráða

Hún segir verðhækkanir á húsnæðismarkaði hafa mikil áhrif. Því sé ríkisstjórnin að grípa til ýmissa ráða.

„Við erum á fullu að undirbúa framkvæmd tillagna sem komu fram í átakshóp um húsnæðismál. Það eru samt, eðlilega, tillögur til lengri tíma.“ 

Þá sé ríkisstjórnin búin a grípa til aðgerða til að verja tekjulægstu hópana gagnvart verðbólgunni.

Loks telur Katrín aðhaldsaðgerðir þær sem boðaðar eru í fjármálaáætlun, koma til með að skipta máli til „millilangstíma.“ 

Fátt annað rætt en stríðið

Katrín lenti í nótt frá Frakklandi þar sem hún fundaði með leiðtogum í Evrópuráðinu.

Hún segir að þar hafi fátt verið rætt jafn mikið og stríðið í Úkraínu og áhrif þess á efnahagskerfi heimsins.

mbl.is