Þingvellir fyrsta Varðan á Íslandi

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra og Einar …
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra og Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum afhjúpa fyrstu vörðuna. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Þingvallaþjóðgarður er afskaplega vel að þessari viðurkenningu kominn,“ segja þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra sem í dag veittu þjóðgarðinum á Þingvöllum viðurkenningu sem fyrstu Vörðuna á Íslandi.

Ráðherrarnir afhjúpuðu heiðursmerki Vörðu og fengu kynningu á Búðarslóð, nýrri afþreyingar- og fræðsluleið á Þingvöllum. Kynntu þeir einnig að um næstu áramót geti staðir óháð eignarhaldi eða umsjón sótt um að fara í ferli til þess að verða Vörður.

„Það er ánægjulegt að fá að verðlauna fyrstu Vörðuna einmitt á þessum tíma, nú þegar sólin stendur sem hæst og faðmur landsins stendur opinn sem aldrei fyrr fyrir áhugasömum gestum. Ég hef þá framtíðarsýn að Vörður verði að finna í öllum landshlutum,“ er haft eftir Lilju í tilkynningu.

Ferðamenn komist um landið á vistvænan hátt

Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

„Það er mikilvægt að framsýni ráði för þegar ákveðið er hvernig við viljum haga málum við fjölsótta ferðamannastaði í náttúru Íslands og með samstarfsverkefninu Vörðu er lögð áhersla á heildstæða áfangastaðastjórnun.

Meðal framtíðarmarkmiða sem ég horfi til er að ferðamenn komist um landið okkar á sem vistvænastan hátt og þess vegna er ánægjulegt að í viðmiðum Vörðu er einmitt kveðið á um hraðhleðslustöðvar þar sem hægt er að koma því við,“ er haft eftir Guðlaugi í tilkynningu.

Skoða má gagnvirkan fróðleik á Búðarstíg.
Skoða má gagnvirkan fróðleik á Búðarstíg. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is